Tvisvar á ævinni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Í safninu eru níu smásögur.

Úr Tvisvar á ævinni:

Úr sögunni Afmælisgjöfin

3

Jóhanna heyrði foreldra sína aldrei rífast enda sá hún þá ekki oft saman. En eina helgi seint í ágúst heyrði hún móður sína segja: “Farðu þá, bölvaður.” Andartaki síðar kom faðirinn út úr eldhúsinu, settist svipbrigðalaus inn í stofu og tók upp dagblað úr viðargrindinni. Inni í eldhúsi var móðirin að hræra í potti eins og ekkert hefði í skorist. Jóhanna hugsaði með sér að henni hefði misheyrst.
Nokkrum dögum síðar birtist enn einu sinni flutningabíll fyrir utan húsið, raunar sá fyrsti í nokkra mánuði. Jóhanna velti því fyrir sér hvernig koma ætti fyrir fleiri húsgögnum og beið í ofvæni eftir því að sjá hvað kæmi út úr bílnum.
En út í bílinn var borið brúna sófasettið, stofuskápurinn, ruggustóllinn, hjónarúmið nýtískulega, útvarpið úr eldhúsinu og tvær úttroðnar ferðatöskur. Inni í stofu birtist aftur gamli snjáði tekksófinn með slitna ullaráklæðinu. Hvar í ósköpunum hafði hann verið geymdur? Það var undarlegt að sjá hann hérna aftur, eins og að ferðast rúmlega heilt sumar aftur í tímann.
Nokkru síðar vakti mamma hana um miðja nótt og sagði: “Geturðu ekki sofið, Jóhanna mín?” Jóhanna hafði verið steinsofandi en glaðvaknaði við þetta, mamma leiddi hana inn til sín og þær lögðust til svefns á stórri dýnu sem nú lá á gólfinu í hjónaherberginu í stað rúms. Jóhanna horfði upp í loftið og skynjaði gamla minningu sem ekki tók á sig mynd í huganum. Einhvern tíma, fyrir löngu síðan, hafði hún legið á milli þeirra beggja í hjónarúminu.

(s. 70-71)