Tungumál fuglanna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Tungumál fuglanna var gefin út undir dulnefninu Tómas Davíðsson.

Úr Tungumáli fuglanna:

10:15

- Hvað er að ske? Magni var kominn. Hann hafði greinilega verið í baði. Það lagði mikla rakspíralykt af honum og hárið var ekki orðið þurrt.
Tómas hafði grun um að Magni færi ævinlega í bað einu sinni í viku, og það á föstudagsmorgnum, til að þvo af sér blað vikunnar sem nú var komið út, og endurnærast og safna krafti fyrir næsta blað, sem þurfti að skipuleggja í grófum dráttum eftir hádegi á föstudögum, svo að allir gætu gengið beint til vinnu á mánudagsmorgnum.
- Hvað er að ske? sagði Magni. Ég var kallaður upp úr baðinu. Ég hélt það hefði verið brotist inn hérna - eða framið morð eða eitthvað meiriháttar væri á seyði. Hvað er að ske?
- Þetta, sagði Tómas og rétti honum bréfið og kvittanirnar. Sestu.
Magni var eldfljótur að renna augunum yfir blöðin. Hann leit upp:
- Vá! Þetta er meiriháttar. Hvar fékkstu þetta?
- Þetta bara kom hingað. Nafnlaust. Lá á borðinu mínu í morgun. Mér fannst rétt að láta þig vita um leið.
- Vita einhverjir fleiri af þessu?
- Sá sem sendi bréfið geri ég ráð fyrir.
- Ég meina, hefurðu sagt einhverjum frá þessu? Hefurðu hringt í einhvern?
- Auðvitað ekki. Mér fannst rétt að ræða fyrst við þig.
- Þetta er meiriháttar!
- Ef þetta er satt.
- Hvort sem þetta er satt eða ekki er þetta meiriháttar mál. Ef þetta er lygi eða þessar kvittanir eru falsaðar þá er það ekkert smáræðis mál heldur. Þetta gæti vel orðið mál aldarinnar.
Mál aldarinnar. Í augum Magna mátti flokka alla hluti undir þrjár fyrirsagnir: Gott mál, vont mál og ekkert mál.
- Við verðum að negla hann, sagði Magni.
- Hvað meinarðu?
- Við verðum að fá yfirlýsingu um hvar hann stendur. Viðurkennir hann að hafa tekið við peningunum eða ekki? Og ef hann viðurkennir það, hvað varð þá um peningana? Og ef hann viðurkennir það ekki, hvaða kvittanir eru þetta þá frá Dansk-íslenska sem er upp fyrir haus í söluskattssvikum, fölsuðum innflutningsskýrslum og allkonar vitleysu? Það er ekki einleikið hvernig þetta fyrirtæki hefur bólgnað út á örfáum árum.
- Þér finnst sem sagt að við eigum að fara í þetta mál.
- Hvað meinarður? sagði Magni. Finnst þér koma til greina að láta eins og ekkert sé?
- Nei, ég á bara við að við látum ekki misnota okkur. Ef þetta er allt saman vitleysa og enginn fótur fyrir neinu þá erum við að láta misnota okkur - ef við verðum til þess að einhver blettur kemur á mannorð forsætisráðherrans - ef hann hefur ekkert gert af sér á ég við.

(s. 70-71)