Tobías og vinir hans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Myndir eftir Sigrúnu Eldjárn.

Úr Tobíasi og vinum hans:

 - Frábært, frábært, hrópaði Tinna upp yfir sig og dansaði eftir gangstéttinni. - Þetta er flottasti bíll heimsins!
 - Þessi drusla, ógeðslegasti, asnalegasti kassabíll sem til er, sögðu nokkrir strákar úr blokkinni sem stóðu og horfðu á, þó með ofurlítilli öfund í svipnum. Það hefði ekki verið amalegt að fara í sumarfrí á svona farartæki. Munur eða vera troðið í aftursætið á fólksbílum foreldra þeirra innan um bæði eldri og yngri systkini, sem rifust og slógust, enda oft svo þröngt að varla var hægt að anda.
 - Finnst ykkur þetta drusla, strákar mínir? sagði Sighvatur og hló svo skein í hvítar tennurnar. - Það er þá ekki til neins að bjóða ykkur í prufuaksturinn, ég var að hugsa um að skreppa út úr bænum og drekka þar miðdegiskaffið, skjótast svo heim aftur eftir því sem ég hef áreiðanlega gleymt.
 Það fór að fara um strákana.
 - Ég sagði ekki að hann væri drusla, sagði einn vandræðalega.
 - Ekki ég heldur, sagði annar. Strákarnir tróðust hver um annan. Sighvatur setti hendur á mjaðmir og horfði á þá.
 - Einhver sagði það, en hver? sagði hann eins og við sjálfan sig.
 Ljóshærður snáði klóraði sér í úfnum lubbanum og gaut augunum fyrst á strákana, svo á Tobías og Tinnu. - Ég sagði það, stundi hann upp og horfði nú beint framan í Sighvat. - En ég öfundaði ykkur bara að vera að fara í sumarfrí á svona flottum druslubíl, ég verð að fara til Majorka með pabba og mömmu.
 - Heldurðu að það sé munur, þú ert bara að fara á sólarströndina. Við fáum áreiðanlega bæði rok og rigningu oft í sumar og hver veit nema það snjói á okkur á einhverjum fjallveginum svo við sitjum þar föst, sagði Sighvatur alvarlegur á svip.
 - Þú hefur bara með þér skóflur og allar græjur, þá gerir ekkert til þó snjói, sagði strákur ákafur.
 - Við erum með kerti og spil, svo það má snjóa, sagði Tinna. - Og nóg er af mat og fötum.
 - Ég skal skipta við þig. Þú ferð til Majorka, þar er alveg æðislegt, sjóskíði og allt mögulegt, og engin hætta á snjó eða roki, sagði strákurinn. - Nei, sagði Tinna, þú mátt fara í æðið, ég ætla upp á fjöll og niður í dali, já, meira að segja getur verið að við förum á sjó og veiðum fisk í soðið. Strákurinn stundi: - Ég nenni ekki að hanga í hitanum í þrjár vikur. Svo má maður ekkert fyrir mömmu, hún heldur alltaf að við týnumst, því hún týnir pabba stundum og þá kemur nú hvellur. Pabbi þarf að tala við svo marga og þá gleymir hann sér.

(s. 6-7)