Tímaþjófurinn

Útgefandi: 
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Tímaþjófinum:

Göngufrí í okt

Sjötti bé suðaði svo mikið að ég gaf göngufrí. Þetta er í fyrsta skipti á tólf ára kennsluferli sem ég gef göngufrí um haust. Það er veðrið til þess. Langt að komin sólin skín miskunsöm á regnbogalauf jarðar og svo á ég líka afmæli. Þrjátíuogsjö þótt skömm sé frá að segja. Skyldu þeir vita réttan aldur á kennslukonunni sjötta bé bekkjar piltarnir sem þrá hana leynilega hver í kapp við annan.
Mér er það alltaf huggun harmi gegn (jafnvel þótt ég sé ekki nauðsynlega harmi slegin í það og það skiptið) að trítla um Gamla kirkjugarðinn. Hér er ég nefnilega svo stálheppin að eiga vísan stað hvenær sem mér þóknast að hefja hvíld í friði hjá Öldu Einarsdóttur Ívarsen og Oddi Ívarsen landlækni og Öldu Oddsdóttur Ívarsen, andvana fæddri, réttu ári á undan mér heilli og lifandi fæddri. Nafnið mitt var sem sagt til áður en ég kom í  heiminn, á litlum legsteini í ættargrafreitnum. Ég ólst upp við að skoða það, hissa og fegin að þarna var ég ekki, bara nafnið mitt.
Skelfing hvað það verður nú huggulegra fyrir mig að hrökkva uppaf en þorra Íslendinga. Mér er þó ætlaður staður, en hinir greyin, alveg í óvissu um hvar þeim verður holað niður. Við Nesti í Fossvogi kannski, eða uppi á öskuhaugum. Er það nú mórall að jarða fólk í fyrrum ruslahaug. Er ætlast til að liðið hvíli í spekt með ísskápshurðir bretti saumavélar og stólfætur næst sér; er nú ekki nóg sem límir fólk við jarðlífið þótt það fái að vera í friði fyrir framliðnu dóti eftir dauðann. Var því virkilega ekki nóg truflun að teygjum og bendlaböndum meðan það var og hét? Eða aumingja dána fólkið í Fossvoginum, alveg uppundir Öskjuhlíð sumt hvað og langar í sólbað milli jólatrjánna, eða það er of nálægt Nesti og óskar sér einnar með öllu. Nei auðvitað er það sá Gamli sem blívur, þar var byrjað að gróðursetja okkur fyrir svo löngu og steinarnir útsprungnir allt árið. Svo er stutt í bíó og leikhús og á barina, og það er alltaf í þeim Gamla sem skemmtilegasta fólkið gengur og hugsar fallega til okkar sem verðum horfin sjónum.
Enginn getur ímyndað sér öryggið í að eiga frátekinn stað undir grænni torfu. Óundirbúin brottför út í veður og vind væri ekki að mínu skapi. Það er höfuðnauðsyn manneskju einsog mér að vita nákvæmlega hvar ferðalagið á að enda.
Inni í miðjum garði situr ólétt kona á leiði. Við hliðina á henni er maður sem býður vínarbrauð úr brúnum bréfpoka. Svona leynist margt í lífríki kirkjugarðsins ef að er gáð. Þessi tvö eru úr alþýðustétt í illa sniðnum fötum. Þau eru bæði með englahár, fíngert og liðað. Og það geislar af þeim einhverju sem ég þekki ekki en hef lesið um á margri misþykkri bók. Það rifjast upp fyrir mér sem ég hef náttúrlega alltaf vitað: svo margt sem ég á ekki um að velja. Til dæmis alls ekki að vera ólétt alþýðukona að borða vínarbrauð í kirkjugarðinum með ektamanni.
Á leiði með litlum engli sé ég afmælið mitt. 18. október. Þann dag fyrir fjörtíuogfjórum árum dó stúlkubarnið Þórunn Jónsdóttir, sjö ára gömul. Það er stundum sagt að fólk venjist öllu, en það er ekki satt. Fólkið í gamla daga á Íslandi var dafndapurt og þegar fimmta barn dó og það fyrsta. Af ellefu börnum þeirra hjóna komust tvö til manns. Saga úr nútímanum á Íslandi. Ungbarnadauði hvergi lægri í heiminum en á Íslandi. Önnur saga úr nútímanum. En það er sama þótt snögg umskiptin séu til hins betra, aumingja þjóðin hefur ekki þolað þau. Hún er einsog ferðamannahjörð ringluð af þotuveiki. Það sem bjargar mér er að vera aristókrat í þrjá ættliði. Ef ég væri það ekki þá væri ég búin að fylla húsið hjá mér af frystikistum og hefði aldrei stigið fæti á ítalska grund.
Átjánda októbersólin skín mér skært í há-hádeginu. Ég fer úr frakkanum, er bara á stutterma peysu og tylli mér á leiði Þórunnar Jónsdóttur barns. Ég raka saman regnbogans laufum með mokkasínunum og ég leyfi mér þann munað að leggjast á þau og hneppa aðeins frá peysunni í hálsakoti. Þá blikar á demantinn í giftingarhringnum sem hún móðir mín vildi að ég erfði eftir hana. Best þú berir hann frekar en engan hring, sagði hún, handviss um að ég mundi engan vilja og aldrei giftast.
Lognið og kyrrðin í heimi legsteinanna færist yfir mig. Mér rennur í brjóst með laufin við vanga. Hrekk svo upp við eitthvert þrusk, en ég sé ekki neinn. Vonandi fer enginn að ganga fram á mig lárétta á leiði einsog þegar Jóndi gekk frammá okkur Nonna að kyssast í þessum garði sjöttabekkjarvorið.
Annars var ég yfirleitt ein á ferð hér á menntaskólaárunum. Ein á leið heim í Sörlaskjól af skólaballi, í ullarsokkum, bomsum og á siffonkjól undir tvídkápunni sem mamma keypti í London. Og það brakaði í snjóskorpu á leiðunum. Ég man ekki eða skil ekki hvers vegna ég var yfirleitt ein míns liðs. Því ég var skemmtileg falleg og gáfuð og fín í tauinu. Og stórættuð. En það getur auðvitað fælt ættleysingjana frá.
Ekki er ég fyrr staðin upp, búin að hneppa peysunni og skella Burburryfrakkanum yfir beran handlegginn með fóðrið út en bláeygði samkennarinn frá því á skólasetningu birtist í kirkjugarðshliðinu. Hann stendur kjur og ég geng rólega til hans. Í dag minnir hann hvorki á ylfing né bangsa. Maðurinn er stórglæsilegur og ekkert annað, herðabreiður í kolsvartri peysu.
Hvað ert þú að gera hér, segi ég og píri augun svo birtan úr himneskum augum hans ætli ekki alveg að sprengja á mér hausinn.
Sama og þú, segir hann.
Sá er munurinn að þú veist ekki hvar þú verður um aldir. Ekki getur þú farið í skoðunarferð að lóðinni þinni í kirkjugarðinum einsog ég, sem er með frátekið á grænni grein.
Alveg rétt, með sérstakan grafreit, svona ættstór kona. Ég hef alltaf liðið fyrir að geta ekki rakið ættir mínar neitt nema út í mýri. Það er mikið böl í klíkusamfélaginu á Íslandi að vera ættsmár. Dettur þér í hug að ég væri menntaskólakennari ef ég væri kominn af alminlegri ætt.
Ja ekki dugði það mér til varnar, segi ég. En þú bætir þér upp ættleysið með því að vera stór í sniðum að útliti til og gætir þess vegna verið afkomandi Einars Ben jafnvel Egils og annarra stórmenna. Sjálft nafnið á þér bendir til þess konar skyldleika.
Samkennari minn í sögu roðnaði og sagði að best væri að hafa bæði útlitið og ættina með sér. Hann bætti við að gott ætti ég að eiga vísan stað hvenær sem allt veltist.

(s. 13-17)