Til Ameríku

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990

Ameriikan raitti eftir finnska höfundinn Antti Tuuri í þýðingu Njarðar.

Sjálfstætt framhald skáldsagnanna Dagur í Austurbotni og Vetrarstríðið.

Úr bókinni:

Þegar við komum inn í flugstöðina úr vélinni, var hlýtt í lofti en ekki heitt. Loftkælingin suðaði, Taisto var að þynnast upp, og við stóðum í stórum sal og biðum þess að einhver kæmi að sækja okkur. Tapani hafði lofað að hitta okkur á flugvellinum, ég hafði hringt til hans nokrums innum frá Stokkhólmi, en nú sást hann hvergi. Kaisu hafði áhyggjur af farangrinum, við sáum ekkert færiband fyrir ferðatöskur. Taisto hélt skjalatöskunni fast að brjósti sér, honum fannst öllu skipta að vera með peningana á sínum stað, því að maður með peninga gæti bjargað sér hvar sem væri í heiminum. Ef larfar okkar hefðu týnst á leiðinni, þá væri auðvelt að kaupa nýja, og honum fannst að Kaisu þyrfti ekki að syrgja ullarhúfurnar sem kerlingarnar heima hefðu prjónað. Hér gæti hún keypt svo falleg föt á væntanlegt barn sitt, að það væri eins og að skreyta jólatré. Ég spurði Taisto hvort hann væri viss um að hafa peningana á vísum stað. Hann opnaði skjalatöskuna til að sýna mér búntin af dollaraseðlum og ferðatékkum, hrökk við þegar taskan reyndist vera tóm, en mundi svo eftir því hvar peningarnir voru faldir. Hann stillti sér upp fyrir framan mig, ýtti við mér með öðrum hnefanum, var nærri dottinn sjálfur og varð að fálma eftir jafnvæginu innan um blóm, sem var plantaði í löngum röðum á efri hæðinni í biðsalnum. Ég skellti upp úr, því að taska Taistos geymdi ekki annað en þvælt finnskt vikublað sem hann hafði keypt í Stokkhólmi, og það var ekki margra senta virði í þessari heimsálfu. Taisto sagðist hafa byrjað frá núlli fyrr. Hann væri tilbúinn hvenær sem væri að spýta í lófana og taka til höndunum, vinna fyrir sér með eigin höndum og vera fljótur að komast aftur í efni. Ég bað hann að reyna að standa á löppunum. Kaisu benti mér á skilti með ferðatösku og ör og texta á ensku um afhendingu farangurs. Við fórum eftir örinni niður tröppur og út að bílastæði. Þar til vinstri var langur skúr með engan vegg á framhliðinni, og þangað lágu færibönd innan úr flugstöðinni. Við böndin stóð fólk. Úti var hitinn og rakinn þvílíkur að maður vildi helst losna úr honum strax, en nú var hvergi hægt að flýja undan hitanum. Ég sagðist ætla að murka lífið úr Tapani með berum höndum ef hann birtist ekki bráðlega. Ég var með heimilsfang hans, en hafði enga hugmynd um hersu langt væri þangað frá flugvellinum í West Palm Beach.

Það var alla vega fólk og alla vega á litinn sem beið eftir farangri. Við hlustuðum á það. Taisto ákvað að fara strax á enskunámskeið. Nú skildi hann ekki orð, og það kom honum að hugsa til þess, þega rhann var að reyna að læra að lesa fyrsta árið í skólanum og var lengi að átta sig á að bókstafir og samstöfur gætu myndað skynsamleg orð. Kennarinn hafði reynt að láta hann stafa orðið máni, bent á stafina hvern fyrir sig, en þótt hann stafaði þá aftur og aftur ótal sinnum, þá gat hann ekki fengið nokkurt orð úr þeim. Og þegar kennarinn fór að útskýra að þeir táknuðu eitthvað sem skini á himninum, þá hafði hann giskað á sólina í vandræðum sínum. Þetta hafði hann fengið að heyra allar götur þangað til hann var kominn yfir tvítugt, á böllum og í bænum, þar sem skólafélagar hans kölluðu hann Taisto sól. Nú fannst Taisto þetta eins, þegar hann hlusta á tal hvítra og svartra.

(42-3)