Þýska húsið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Farandsölumaður finnst myrtur í lítilli leiguíbúð í Reykjavík, skotinn í höfuðið með skammbyssu. Sjónir lögreglunnar beinast strax að erlendu hermönnunum sem eru á hverju götuhorni sumarið 1941, en samskipti þeirra við heimafólk, ekki síst konur, eru mörgum þyrnir í augum. Í verðlaunabókinni Skuggasundi, sem kom út 2013, voru þeir Flóvent og Thorson kynntir til leiks, samstarfsmenn við lögreglustörf í Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldar. Hér segir frá þeirra fyrsta máli – vestur-íslenski hermaðurinn Thorson er viðvaningur í glæparannsóknum en Flóvent reyndari, eini maðurinn sem sinnir starfi rannsóknarlögreglu í borginni.

Úr bókinni:

Þegar Thorson sneri loks aftur í aðalstöðvar herlögreglunnar fékk hann þau skilaboð að æðsti yfirmaður hans hefði spurt eftir honum. Yfirmaðurinn var Bandaríkjamaður og hét Franklin Webster og fór fyrir lögregluliði hersins, ofursti að tign, maður sem Thorson hafði ekki haft nein kynni af fram að þessu. Hann var á mikilvægum fundi í Höfða og Thorson átti að fara þangað og hitta hann að máli. Hann fór því aftur upp í herjeppann og ók sem leið lá að myndarlegu byggingunni sem stóð út við sjóinn nálægt Laugarnesi. Húsið hafði vakið athygli hans strax fyrstu dagana hans í Reykjavík enda þótti honum það með fegurstu húsum bæjarins. Hann vissi að eitt af stórskáldum Íslendinga hafði átt það á sinni tíð og hann hafði ehyrt sögusagnir um reimleika í stórhýsinu. Fljótlega eftir að breski herinn tók land í Reykjavík höfðu Bretar keypt húsið og þar hafði ræðismaður þeirra nú aðsetur.

Thorson renndi upp að Höfða og tilkynnti um komu sína, sagði hvern hann ætti að hitta og var vísað inn í biðstofu. Nokkur erill var í húsinu, háttsettir menn töluðu saman í hálfum hljóðum, breskir yfirmenn og bandarískir starfsbræður þeirra voru á þeytingi milli herbergja og hann sá íslenskan ráðherra sem hann þekkti í sjón rjúka inn í húsið og hraða sér upp á aðra hæð ásamt tveimur mönnum öðrum. Eitthvað mikið virtist standa til. Stór ljósmynd af forsætisráðherra Breta, Winston Churchill, hékk á vegg í biðstofunni og Thorson stóð og mændi upp á hana þegar hann heyrði djúpa rödd ávarpa sig.

- Ég frétti að þú hefðir lent í einhverjum vandræðum með einn af okkar góðu skemmtikröftum, sagði ofurstinn, um leið og hann birtist hljóðlaust fyrir aftan hann.

Thorson sneri sér við og heilsaði. Ofurstinn var að minnsta kosti þrjátíu árum eldri en hann, fremur vinalegur maður ásýndum en harður í horn að taka að því er Thorson skildist. Hann hafði það frá félögum sínum í herlögreglunni.

- Við leystum það, herra, sagði Thorson.

- Gott. Mér skilst að þú talir reiprennandi íslensku, sért raunar af íslensku bergi brotinn, alinn upp í Kanada. Er það rétt hjá mér?

- Það er rétt, herra. Ég er það sem er kallað Vestur-Íslendingur. Foreldrar mínir fluttust héðan til Kanada og þar er ég fæddur og uppalinn.

- Gott. Og hvað hefur þú verið lengi á Íslandi?

- Ég var sendur hingað sem túlkur með nokkrum kanadískum sjálfboðaliðum þegar landið var hertekið og var strax settur í herlögregluna. Ég var fluttur í lögreglusveit ykkar Bandaríkjamanna þegar þið byrjuðuð að taka við vörnum landsins núna í sumar. Það koma oft upp aðstæður á milli hersins og heimamanna þar sem þekking á tungumálinu kemur í góðar þarfir.

- Já, ég geri mér grein fyrir því og það er nokkuð sem ég er að fiska eftir. Ég er að leita að manni sem talar íslensku og hefur einhvern skilning á heimamönnum en gætir hagsmuna hersins. Heldurðu að þú sért sá maður?

- Ég tala Íslensku, sagði Thorson. Ég hef ekki öðlast neinn skilning á heimamönnum ennþá.

Brosvipra myndaðist á andliti ofurstans.

- Ég ímynda mér að þú hafir ekki mikla reynslu af morðrannsóknum.

- Nei, ekki nokkra, sagði Thorson.

- Þú verður fljótur að læra.

(25-6)