ÞÞ - í forheimskunarlandi

ÞÞ í forheimskunarlandi, Þórbergur Þórðarson
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009

Um Bókina

Þórbergur Þórðarson - ÞÞ - er einn fremsti höfundur íslenskra bókmennta, en hann var ekki aðeins stílsnillingur og ofviti, heldur einnig sanntrúaður ovétsinni, spírítisti og furðufiskur í mörgu tilliti.

Hér er Þórbergi fylgt allt frá aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari til endadægurs hans þjóðhátíðarárið 1974. Hvað var að gerast í bókmenntum? Hvar var að gerast í stjórnmálum? Hvað var um að vera í einkalífi Þórbergs?

Pétur Gunnarsson rithöfundur fyllir hér nostursamlega upp í myndina af Þórbergi og styðst ekki aðeins við útkomin verk skáldsins heldur einnig ríkulegt óbirt efni. Þess seinni bók Péturs um Þórberg hlaut ekki síður góðar viðtökur en sú fyrri, bæði hjá lesendum og gagnrýnendum, enda um brautryðjendaverk í ævisagnaritun að ræða.

Úr ÞÞ - í forheimskunarlandi:

Í lok september halda þau til Íslands með Brúarfossi samferða búslóðinni. Hreiðurgerð er lokið á Hringbrautinni þar sem öllu er fyrirkomið af útsjónarsemi og listrænum smekk húsfreyjunnar. Hér býr Margrét bónda sínum þá umgjörð sem hann þarfnast til að geta hámarkað afköst sín. Hún mætir heiminum fyrir hans hönd, annast fjjárreiður, heldur forleggjaranum við efnið og henni er að mæta ef einhver ætalr að rjúfa vinnufrið skáldsins.

,,Alls konarleiðinlegt fólk hringdi til hans í tíma og ótíma, enis og algengt er, þegar menn eru orðnir þjóðkunnir og umdeildir.

Ef einhver hringdi til dæmis og spurði, hvort Þórbergur væri við, á meðan hann var önnum kafinn við vinnu sína, spurði ég gjarnan á móti:

,,Eigið þér brýnt erindi við hann?

Og oft var svarið eitthvað á þessa leið:

,,Neinei! Mig langaði bara til að spjalla við hann.

Þá flýtti ég mér að segja:

,,Ja, þá er hann ekki við.185

Rútína hentar Þórbergi vel, hann gengst upp í rútínu, gengur fyrir rútínu. En svo á hinn bóginn er hann spennufíkill sem þarf stöðugt á því að halda að ekki sé allt sem sýnist. Í samtölum við gest og gangandi beinir hann talinu staðfastlega að hinu yfirnáttúrulega. Hvort nokkur hafi orðið var við dularfulla menn, dularfull dýr, dularfull fótatök á gólfum og í stigum, dularfull högg, dularfull ljós, dularfulla sönglist í klettum og hólum, dularfull gól í ármynnum, dularfulla flutninga á hlutum, dularfull hvörf hluta, dularfull teikn á himni ...

En jafnframt gengur enginn lengra en hann í að búa til rútínu. Af óbugandi seiglu færir hann dag eftir dag hitastig og loftþrýsting og veðurlýsingu. Bútar vegalengdir niður í skref til að telja. Og tímasetur allt sem fyrir ber: ,,Hitti X kl. 5.07 og kvaddi hann kl. 5.47. En lætur ekki þar við sitja heldur tímasetur líka hvenær aðrir koma og fara þar sem hann er gestkomandi. Samkvæmt þessu hefur hann stöðugt verið að líta á klukkuna og skrá hjá sér, því varla getur hann munað að kvöldi að hann hafi hitt X klukkan sjö mínútur yfir fimm og skilið við hann fjórtán mínútur í sex, en í millitíðinni hafi Y slegist í hópinn ellefu mínútur gengin í sex og kvatt átján mínútur fyrir ...

(122-3)