ÞÞ í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar

ÞÞ í fátætkarlandi, Þórbergur Þórðarson
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007

Af bókarkápu:

Þórbergur Þórðarson er án efa einn fremsti höfundur íslenskra bókmennta, en það vekur furðu hve seihnt hann ,,fór í gang. Hann er orðinn 36 ára þegar Bréf til Láru kemur út og stendur á fimmtugu þegar hans fyrsta eiginlega skáldverk, Íslenskur aðall, lítur dagsins ljós.

Hvað hafðist hann að fram að því? Hann háði löngum tvísýna glímu við sárustu fátækt, gaf sig allan á vald háleitustu hugsjónum og átti í litríkum ástarævintýrum.

Í ÞÞ - í fátæktarlandi endurskapar Pétur Gunnarsson þroskasögu Þórbergs og leitar víða fanga, ekki aðeins í útkomnum verkum heldur líka ríkulegu óbirtu efni: sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti. Hér er dregin upp mynd sem á eftir að koma nýjum sem gömlum aðdáendum Þórbergs á óvart.

Úr ÞÞ - í fátæktarlandi:

Félagi Þórbergs og vinur frá háskólaárunum, séra Jakob Kristinsson, gerðist formaður Guðspekifélagsins árið 1920, þá nýkominn frá Kanada þar sem hann hafði þjónað söfnuði Vatna-, Sólheima- og Foam-Lake í Saskatchewan. Fyrir dyrum stendur alþjóðaþing guðspekinga í París, þangað er von á Krishnamurti og fleiri talsmönnum guðspekinga, allt hálfheilagir menn sem sumir höfðu skrifað frægar bækur. En fyrst yrði farið til London þar sem Annie Besant myndi halda fyrirlestra, en hún var þá nýkomin frá Indlandi.

Kemurðu með?

Þórbergur fuðrar allur upp, þetta er fáheyrt tækifæri til að komast í tæri við sjálfa meistarana. En hvar átti hann að taka farareyri?

Það upphefjast miklar spásseringar aftur og fram um götur bæjarins með brakandi heilabrotum. Og enn til marks um bætta stöðu Þórbergs að hann sem áður herjaði á Pétur og Pál í von um fjórða part úr krónu, honum tekst að fá tvo kunningja til að skrifa upp á víxil að upphæð krónur 2000 (um þær mundir eru árslaun Þorgeirs á Eyrinni krónur 3723).

Lagt er af stað úr Reykjavíkurhöfn 10. júní, fararskjótinn er togari. Þórbergur sefur í lúkarnum og í kojunni á móti er gamall skipsfélagi frá því á Kútter Seagull, 13 árum fyrr. Var það kannski þessi sem hótaði að skera af honum hnappinn ef hann mauksyði kinnarnar?

Hvort Þórbergur hefur ekki mælt tímann sem liðinn var! En finnur sig líka óverðugan um borð í skipi þar sem hver hreyfing er bundin takmarki og tilgangi. Hann er 33 ára, próflaus, stöðulaus, óskrifað blað. Var ekki tóm vitleysa að vera að ana þetta út í óvissuna í stað þess að reyna að gera eitthvað af viti hér heima?

Það er trollað úti fyrir Landeyjarsandi og guðspekikandídatinn horfir á trollið svífa upp úr hafinu útbelgt eins og vel kýldur blóðmörskeppur og sleppa síðan innihaldinu yfir þilfarið: hundruð fiska af öllum stærðum og litum sprikla og gapa þar til stakkklæddir stríðsmenn gera þeim skil með kutum sínum.

En voru þetta ekki lífverur á þróunarbrautinni? Voru ekki morðingjarnir að seinka sinni eigin þróun? Íþyngja sínu karma og gera jafnvel að verkum að þeir myndu fæðast í dýralíki í næsta lífi?

(116-117)