Þrjár sögur eftir Saki

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000

The Best of Saki, eftir Hector Hugh Munros.

Úr Þrjár sögur eftir Saki:

Opinn gluggi (brot)

“Áfalli?” endurtók Framton; einhvern veginn var hörmulegt áfall úr stíl við þennan friðsæla stað.
“Þú hefur kannski furðað þig á því að við skulum hafa þennan glugga galopinn síðdegis í október,” sagði stúlkan, og benti með hendinni á stóran franskan glugga sem opnaðist út á grasflötina.
“Það er frekar hlýtt miðað við árstíma,” sagði Framton, “en tengist glugginn á einhvern hátt þessu áfalli?”
“Út um þennan glugga, fyrir þremur árum upp á dag, fóru maðurinn hennar og tveir yngri bræður hennar á sínar venjulegu fuglaveiðar. Þeir komu aldrei aftur. Á leiðinni yfir mýrarnar sem liggja að veiðilandinu lentu þeir allir þrír í stórhættulegu feni. Það var ægilegt rigningarsumar, manstu ekki? Staðir sem hefðu verið öruggir í venjulegu árferði gáfu sig allt í einu fyrirvaralaust. Þeir fundust aldrei. Það er hörmulegast.” Hér brast rödd þessarar sjálfsöruggu stúlku og varð óstyrk, næstum mannleg. “Vesalings frænka mín heldur að þeir hljóti að koma aftur einhvern daginn, þeir og litli brúni spaníelhundurinn sem týndist með þeim, og ganga inn um þennan glugga eins og þeir voru vanir. Þess vegna er glugginn hafður opinn á hverju kvöldi fram í rökkur. Vesalings, elsku frænka mín, hún hefur svo oft sagt mér frá því hvernig þeir fóru út, maðurinn hennar með hvítu regnkápuna á handleggnum, og Ronní, yngri bróðir hennar, syngjandi: Jósep, Jósep, bágt á ég að bíða! Eins og hann gerði alltaf til að stríða henni af því að hann vissi að það fór í taugarnar á henni. Veistu, stundum á svona kyrru kvöldi eins og þessu fer næstum hrollur um mig, því að mér finnst að þeir muni allir koma inn um gluggann …”

(s. 30-32)