Þrek og tár

Útgefandi: 
Staður: 
Seltjarnarnes
Ár: 
1995
Flokkur: 

Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu leikárið 1995 - 1996. Gefið út á bók af Ormstungu 1995.

Úr Þreki og tárum:

BEYGINGAR

Það er dagur. Bjart og heitt. Davíð situr með saxófóninn og spilar lítið stef.
MAGGA heldur á skóm: Þú sagðir að ég væri óþroskuð..
DAVÍÐ: Ekki trúa öllu sem sagt er við þig.
MAGGA: Ég skil ekki afhverju þú er svona ónotalegur við mig.
DAVÍÐ: Ég er að lesa undir próf.
MAGGA: fer í vasana á sloppnum: Ég kom með skó handa þér. Ég stal þeim úr sendingunni. Þetta er alveg nýjasta tíska. Þvertskorin tá.
DAVÍÐ: Hvar á maður að hafa tærnar? Það er ekkert pláss fyrir tærnar í þessu? þarf ég að höggva af mér tærnar?
MAGGA: Ég vil fá að vita hvaða álit þú hefur á mér! Og ekki svara mér í hálfkæringi eins og þið gerið öll, hér í þessu húsi. Hvað hefurðu að segja?
DAVÍÐ: Magga, af hverju varstu að hætta í skóla? Allir þessir kennaraasnar sakna þín sárlega.
MAGGA: Ég hef ekki áhuga á langskólanámi, Davíð.
DAVÍÐ: Ég skil. Þig dreymir um að eignast börn og fallegt heimili. Verða hamingjusöm húsmóðir eins og mamma þín.
MAGGA: Mér finnst þetta ekki fallega sagt, einkum vegna þess að mömmu þykir óskaklega vænt um þig.
DAVÍÐ: Mér finnst mamma þín ágæt kona. Hún hefur alltaf gefið mér fleiri kleinur en ég hef getað torgað. Kannski er hún bara ekki hamingjusöm.
MAGGA: Eins og ég geti ekki orðið hamingjusöm þótt mamma sé það ekki.
DAVÍÐ: Auðvitað geturðu orðið hamingjusöm! Þú finnur bara rétta manninn og býrð með honum fagurt og menningarlegt heimili og þið elskið hvort annað til æviloka í skóbúðinni. Magga grætur. Davíð reynir að blíðka hana. Það tekur tíma, en tekst að lokum. Magga tekur um háls Davíðs. Þau kyssast.
DAVÍÐ: Sagnirnar, Magga, ég verð að læra helling af dönskum sögnum! Ef ég ætla að verða lögfræðingur og græða gommu af peningum þá dugir ekkert slór! Hún er hálf-fúl að atlotunum skuli vera lokið. Hún rífur af honum bókina.
MAGGA: Ég skal hlýða þér yfir. Hún tekur utan um Davíð með annarri hendi, og romsar upp úr sér.
MAGGA: Elske, elskede, har elsket. Jeg elsker, du elsker, vi elsker. Elsker du mig? Jeg elsker dig. Vi har altid elsket hinanden! Elskede elskling elsker du mig! Þarf ég að troða þessu inn í hausinn á þér! hermdu þetta eftir mér.

(s. 32-33)