Þorvaldur Þorsteinsson: sjónþing 4. september 1999

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 

Samantekt og yfirlestur: Hannes Sigurðsson og Sigvaldi Júlíusson.

Úr bókinni:

Raunveruleiki hversdagsins, sem ég var að reyna að nálgast með því að fara til Hollands, er sá sem er búinn að vera ríkjandi hjá mér síðustu árin. Þarna var dálítið langt í hann; það er að segja þetta var ennþá kúltúrfyrirbæri. Ég var að vinna með prentanir eins og í Sviss verkinu. Brýrnar eru tilbúnir hlutir, silfurklumparnir eru tilbúnir hlutir sem vísa fyrst og fremst í ímyndir eða hugmyndir. Í þessu verki breyttist þetta aðeins og ég fór skrefi nær hversdagsleikanum; sem er mér einkar hugfólginn núna, og bjó til símaklefaverk sem er hljóðverk og lítur svona út. Það er rautt ljós inni í því og vifta sem djöflast á glugga; ekkert gat í gegn þannig að hún virkar ekki heldur djöflast á honum. Út úr símaklefanum heyrðist þetta fullnægingarvein í þrjá daga samfellt. Þetta er nokkurn veginn samfelld fullnæging konu úr raunverulegum kynlífssíma í Hollandi árið 1989 eða 1990. Ég varð að gera þetta í Hollandi því við vorum ekki orðin eins advanseruð þá og núna. Ég er að hugsa um að gera íslenska versjón fljótlega. Það eina sem ég gerði var að hækka svolítið volumið í veruleikanum. Ég bjó ekkert til heldur miðlaði því sem var til.

Í framhaldi af þessari ýktu fullnægingu á bandinu, sem er sögð í auglýsingunni vera „Life performance“, þá var ég svolítið upptekinn af þessum hugmyndum um þjöppunina aftur. Ekki endilega heimsmyndina, heldur þjöppun þar sem maður vill bara fá öll mörkin í leiknum á tveimur mínútum í sjónvarpinu. Nennir ekki að horfa á allan leikinn. Þetta var dálítið svona. Maður nennir ekki öllu hinu því það var bara fullnægingin sem skipti máli.

Þarna gerði ég verk fyrir enn eina samsýninguna með þema sem var þessi átján holu golfvöllur á einum stað. Þjappaður. Ekkert vesen með upphafshögg og brautir, bara það sem skiptir máli: holurnar átján.

Það var gert auglýsingaskilti líka sem mér þykir vænt um. Verkið hét Hole in one. Reyndar hét það Whole in one, en þetta var auglýsingaskiltið með átján götum fyrir völlinn allan: WHOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOLE IN ONE.

(16-7)