Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917

Þóra biskups, Sigrún Pálsdóttir
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010

Um bókina

Stúlkan sem sagðist ævinlega til í „sukkið“, gat elskað tvo menn í einu … kúrði til klukkan ellefu og sat annars hugar undir guðs orði … er komin hátt á sjötugsaldur. Hún er komin óravegu frá hinu óhaggandi samfélagi embættismanna um miðja nítjándu öld; hinum formfasta heimi landshöfðingja tímans. Óravegu frá léttleika æskunnar í húsinu á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis, húsinu sem brátt mun brenna til kaldra kola.

Ævi og örlög Þóru Pétursdóttur Péturssonar biskups yfir Íslandi og eiginkonu Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings eru líklega mátulega stór fyrir samtíma okkar.

Saga hennar segir frá kjólum og karlmönnum, draumum og glæstum vonum; grátbroslegum stundum í lífi lítillar þjóðar. Þetta er saga um tungumál og tjáningu, um þörf og hæfileika kvenna á síðari hluta nítjándu aldar til að búa til margradda frásögn um umhverfi sitt og þetta tímabil sögunnar sem þrátt fyrir allar ljósmyndirnar og textana er hljóðlaust og frosið.

úr bókinni

Dagarnir snúast um bréfin og eftirvæntingin er mikil. Þegar bréf berst frá Þorvaldi í annarri viku júlímánaðar - Þóra tekur sjálf við því í forstofunni - vill svo illa til að á heimilinu er staddur einhver enskur prestur sem hún þarf að sinna því biskupinn er ekki heima. Þór lætur sem hún hlusti meðan presturinn situr sem fastast, "malandi um trúarefni og ýmislegt þessháttar", en er stöðugt með hugann við bréfið og grípur af og til um vasann á kjólnum til að fullvissa sig um að það sé þar ennþá. Þegar presturinn gefst að lokum upp fyrir daufum eyrum Þóru og yfirgefur húsið hleypur hún upp á loft og opnar umslagið. Bréfið fer alveg með hana. Það er í því þetta "eitthvað"sem hún getur ekki útskýrt og hefur dregið hana að honum. Hún getur ekki hætt að hugsa um hann og telur dagana: af 51 degi eru eftir 25 dagar "og er þá einn dagur liðinn fram yfir helminginn af tímanum". Þetta er auðvitað "Nonsens" hugsar hún en kannski þykir hinum glettna og glaðværa Þorvaldi bara vænt um þessa vitleysu.

Þóra hugsar um ástina og örlög sín. Árum saman hefu rhún reglulega haldið því fram að hún hafi ekki ætlað sér að giftast, að þessi og hinn karlmaðurinn hafi ekki freistað hennar, að aðrar stúlkur með bítast um eftirsótta piparsveina, "að hún ekki vildi vera "þessi og þessi frú", að hún afi ætlað sér að pipra eða bara verða "eins og Nunna í klaustri". Líka hefur hún sett á svið atburði til að afsanna löngun sína til návistar við karlmenn, eitt sinn fyrir norðan, eitt sinn við Breiðafjörð. En sviðsetningar og yfirlýsingar Þóru voru auðvitað bara tilraun hennar til að halda reisn í litlu samfélagi og hljómuðu heldur aldrei sérlega sannfærandi því hún herur sífellt verið með hugann við karlmenn, gefandi þeim einkunnir og mátandi þá óbeint við sjálfa sig. Um borð í Arcturusi 1866 var þar einn makalaust laglegur Færeyingur; í bréfunum til Boga bróður síns varð henni tíðrætt um ungu fýrana; í Kalmanstungu á ferð sinni norður 1868 hitti hún manninn með "djúpu augun"; á Sjávarborg það sama sumar var staddur einn "makalaust laglegur" norskur kapteinn; á leið í Flatey vorið 1870 var það skipstjórinn sem ekki var skotinn í henni "frekar en aðrir í heimi þessum"; við heimkomuna í Flatey voru það Engendingarnir Stirling og Everard; sumarið 1782 Englendingurinn Samuel Edmond Waller og hinn dæmalausi Lord Garvagh; í London Birkbeck banastjórasonur. Einkum útlendir menn og líklega var draumur hennar sá að eignast einn slíkan og komast burt frá Íslandi.

En nú eru hjúskaparörlög Þóru ráðin og ekkert bendir til þess að umheimurinn bíði hennar, því heimur hins tilvonandi eiginmanns er náttúra Íslands. Þóra tekur hins vegar af allan vafa um einhverja þrautalendingu fertugrar jómfrúar. Þetta er ást og á hennar eigin forsendum, hún elskar og ekki fyrst og fremst af því að hún sé elskuð: "Eg gjöri það fyrir sjálfan mig að eiga manninn.

Þorvaldur er heldur ekki sérlega fyrirsjáanlegt mannsefni fyrir biskupsdóttur. Það er margt sem mælir gegn honum í heimi embættismannastéttarinnar. Þótt hann standi að vísu nokkurn veginn utan við alla pólitík er Skúli bróðir hans eiginlegur ritstjóri hins róttæka Þjóðvilja á Ísafirði. Þóru grunar meira að segja að Theodóru, konu Skúla, líki ekki við sig. Þórvaldur er líka skólakennari - próflaus í ofanálag - og sú stétt nýtur kannski ekki mikillar virðingar hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar, minni virðingar en til dæmis sýslumenn. Og hann er vísindamaður. Vísindamaður sem stundar fræði sem lærðir menn á Íslandi bera ekki mikið skynbragð á.

(s. 137-139)