Þitt eigið tímaferðalag

Þitt eigið tímaferðalag, Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

um bókina

Þitt eigið tímaferðalag er öðruvísi en aðrar bækur. Hér ert þú söguhetjan og ræður ferðinni. Viltu hitta víkinga, Rómverja eða risaeðlur? Þorirðu að athuga hvað er um að vera á Jörðinni eftir 100 ár? Hvað með 1000? Passaðu bara að týna ekki tímavélinni svo þú komist örugglega heim aftur!

úr bókinni

Þig grunar að það sé ekki gáfulegt að viðurkenna að þú sért tímaferðalangur. Hver veit - kannski vill þessi maður taka tímavélina?

"Ööö ..." byrjarðu, "neeeiii ..." heldurðu svo áfram, alls ekki sannfærandi. Maðurinn horfir efins á þig. "Hvað ertu eiginlega, hvað kallaðirðu þetta, tímaferðalangar? bætirðu við, svona til að sannfæra hann um að þú hafir ekki hugmynd um neitt tengt tímaferðalögum. "Er það ekki bara eitthvað bull?" Þú hlærð og gefur þannig til kynna að þú vitir ekkert um hvað hann er að tala. Maðurinn dregur djúpt að sér andann, er næstum búinn að segja eitthvað en hættir svo við.

"Gott og vel," andvarpar hann og brosið hverfur af vörum hans. "Ég hef örugglega heyrt ofheyrnir."

"Já," segir þú og andar léttar. "Ofheyrnir". Á jörðinni skammt frá ykkur eru systurnar enn að slást.

"Svona nú!" þrumar pabbi þeirra og þær hætta um leið. Stelpurnar spretta á fætur og standa teinréttar hlið við hlið fyrir framan ykkur. Þú sér að sú yngir heldur á hárlubba í öðrum lófanum. Þú sérð líka að sú eldri laumast til að nudda hnakkann.

"Úff," hugsarðu. "Ég myndi ekki vilja lenda í slag við þessar tvær." Stelpurnar fylgjast báðar forvitnar með þér. Næstum eins og þær séu að bíða eftir einhverju.

"Hver er regla númer eitt?" spyr pabbi þeirra skyndilega. Þú lítur á hann og veist ekki hvort hann er að tala við þig eða dætur sínar.

"Við stöndum saman!" hrópa stelpurnar. Þér dauðbregður.

"Hver er regla númer tvö?" heldur pabbinn áfram.

"Þeir sem eru ekki með okkur í liði eru á móti okkur!" hrópa systurnar.

"Og regla númer þrjú?" spyr pabbinn og lítur á þig.

"Segðu satt!" hrópar sú yngri.

"Segðu alltaf satt!" hrópar sú eldri. Pabbinn starir á þig.

"Þú ert lélegur lygari," hvæsir hann. Þú fölnar í framan.

"Nei!"segirðu og byrjar að bakka. Í vasanum suðar tímavélin.

"Sýndu mér hana," rymur pabbinn og þú þorir ekki annað en a hlýða. Þú treður hendinni í vasann og rífur tímavélina upp. Hún opnast eins og blóm.

"HVERT? HVENÆR?" stendur á skjánum.

"Ég misskildi bara spurninguna!" hróparðu. "Ég er tímaferðalangur. Fyrirgefðu, ég hélt að þú værir að spyrja um eitthvað annað." Pabbinn lætur eins og hann heyri ekki í þér.

"Veistu hvað er það erfiðasta við að búa hér niðri?" spyr hann. Þú hristir höfuðið. "Einhæft fæði" er svarið.

"Rætur," segir sú yngir.

"Og ormar," bætir sú eldri við.

"En stundum," tekur pabbi þeirra við, "finnum við eitthvað gómsætt." Þú veist að hann er að tala um þig. Þú tekur ákvörðun. Þú ætlar ekki að taka þátt í þessari vitleysu lengur. Tímavélin er opin. Þú heldur á henni. Þú þarft bara að hrópa stað og tíma.

Þú vilt heim. Eins og skot.

"Minn tími!" hróparðu. "Sami staður!" Systurnar stökkva á þig.

Kunnugleg tilfinning tekur yfir.

Og allt verður svart.

Flettu á blaðsíðu 287.

(s. 153-155)