Þingvellir, staðir og leiðir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Bókin hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum, síðast: Reykjavík: Mál og menning, 1994.

Úr inngangsorðum:

Engu er líkara en íslenzka þjóðin hafi um ýmsa hluti átt sér leyndan hollvætt. Eitt slíkra tilstilla er það, að saman fer helgasti sögustaður hennar og sá staður sem í byggð landsins sem er hvað fjölskrúðugastur og fegurstur að náttúrufari. Frásögn Ara af Grími geitskör, sem fór um land allt að leita staðar undir allsherjarþing, nálgast þjóðsögu af einfaldri snilld. Í huga má sjá þá fyrir sér, Grím og fylgjara hans, með móða og óskóaða hestana, uppi í Hallinum gegnt Bláskógum. Þeir standa hátt í brekkunni, mælast ekki við, en horfa opineygir út yfir skóginn og vatnið og harðan völlinn fyrir neðan. Sá stríðhærði, sem við skör sína er kenndur, snýr sér við og lítur til sólar, hvar hún sé á baugnum; síðan horfast þeir á, félagarnir, með örlítilli brosvipru þreyttra manna í áfangastað.

Eins er þó vant á þessum stað, segir sagan. Upp vellina að sjá er gamall árfarvegur, djúpur í kötlum, en þurr. Áin, sem eitt sinn var, hefur kosið sér annað leg eða verið hrifsuð burt af búendum efra.

Ari Þorgilsson lætur þó ekki hér við sitja, heldur hnýtir hann í frásögn sína táknrænni sögu, symbólskum leiðarsteini þess sem helga skyldi þennan stað. Bóndinn í Bláskógum hafði drepið þræl sinn eða leysing, og því varð land hans allsherjarfé. Ólög og réttleysi leggja lögum og rétti til land. Gjörvöll miðaldatákfræðin býr naumast yfir öllu hittnari samhverfu. Því er heldur ekkert missagt í fræðum þessum.

(5)