Þín eigin undirdjúp

Þín eigin undirdjúp, Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Evana Kisa myndlýsti. Bókin er prentuð með letrinu Dyslexie sem auðveldar lesblindum að lesa.

um bókina

Þín eigin undirdjúp er öðruvísi en aðrar bækur. Hér ert þú söguhetjan og stjórnar ferðinni. Sögusviðið er kafbátur þar sem þrír stórskrítnir skipstjórar ráða ríkjum. Þér er boðið um borð og á leið ykkar um undirdjúpin leitið þið að sokknum fjársjóði, kannið hinn banvæna Bermúdaþríhyrning og eltið uppi heimsins stærsta sæskrímsli.

úr bókinni

Þú bendir á Hafdísi.

"Hvert viltu fara? Hvað viltu gera?" Hafdís brosir og arkar til þín.

"Sæþór er kvikmyndagerðarmaður," segir hún spennt, "prófessor Alda er sjálvarlíffræðingur en ég," og hún sveiflar einhverju löngu, mjóu og upprúlluðu, "ég er ævintýramanneskja. Ég leita uppi ævintýri!" Þú beygir þig til að fá ekki það sem Hafdís heldur á í höfuðuð um leið og hún klárar snúninginn. Hafdís skellir því á gólfið og breiðir úr því. Þú hefur horft á nógu margar bíómyndir og lesið nógu margar ævintýrabækur til að vita hvað þetta er: Kort.

Kortið er veðrar og illa farið og greinilega langt síðan það var teiknað. Það sýnir heiminn allan og á því miðu, í Atlantshafinu sjálfu, hefur verið teiknað stórt X. Þú sest á gólfið við hliðina á kortinu.

"Þarna," segir Hafdís og bendir titrandi fingri á X-ið.

"Þarna?" apar þú upp eftir henni.

"Fjársjóður," hvíslar hún. "Verðmætari en nokkuð annað. Á svo miklu dýpi að það er ekki möguleiki að komast að honum nema á kafbáti." Hún opnar faðminn. "Við værum bjánar að nýta ekki þetta ótrúlega tækifæri. Það er nú eða aldrei. Koma svo!" Hún horfir djúpt í augun á þér og eitt andartak sérðu glitta í eitthvað framandi í fasi hennar. Eitthvað sem er ekki jafn sjálfsöruggt og gott með sig og plássfrekt og Hafdísin sem þú hefur kynnst hingaði til. Svo hverfur það. Eins og dögg fyrir sólu. Hún glottir og er aftur orðin sjálfri sér lík. Þú brosir.

"Spennandi," segirðu loks. Hafdís kinkar kolli.

"Ef þú bara vissir," hvíslaði hún. Gæsahúð læðist um líkamann.

Svo lítur hún sigri hrósandi á Sæþór og prófessor Öldu sem standa full eftirvæntingar skammt frá ykkur.

"Næsti," tilkynnir Hafdís, Hún er búin.

Hvern ætlarðu að hlusta á næst?

Sæþór. Blaðsíða 228.
Prófessor Öldu. Blaðsíða 55.
Ef þú hefur hlustað á hugmyndir allra skaltu fletta á blaðsíðu 11.

(s. 168-169)