Þið hefðuð átt að trúa mér!

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Þið hefðuð átt að trúa mér!:

Árni fór til frænku sinnar strax eftir skóla svo að Tommi var samferða öðrum krökkum heim. Þegar hann var kominn upp brekkuna skildi leiðir og hann vingsaði töskunni í góða veðrinu og hugsaði um það hvernig Árna yrði ágengt hjá frænku sinni. Þá var athygli hans allt í einu vakin er hann sá kunnuglegan sendibíl standa við endann á blokkinni sem hann bjó í. Hann stakk við fótum og hætti snarlega að vingsa töskunni. Tveir náungar voru að bera húsgögn inn í húsið. Þeir voru hugsanlega að flytja inn. Svei mér ef þetta voru ekki einmitt mennirnir sem voru við vatnið daginn sem þeir vinirnir reyndu sig við sjómennskuna. Hann fikraði sig nær en fór varlega. Hann gat ekki að því gert að honum fannst þeir með skuggalegri mönnum og það fór hálfgerður hrollur um hann.
Hugmyndaflugið komst á fulla ferð. Fyrir skömmu hafði hann séð mynd í sjónvarpinu þar sem bankaræningjar höfðu komist undan með mikla peninga. Svei mér ef þeir litu ekki út eins og þessir menn! Hann hafði líka lesið það í blaðinu að mikið væri um innbrot í borginni um þessar mundir.
Hann stóð og horfði á þá eins lengi og hann þorði miðað við að þetta voru kannski hættulegir menn sem ekki væri vert að reita til reiði en svo laumaðist hann inn til sín. Eirðarlaus gekk hann á milli glugganna. Svakalega var Árni lengi hjá þessari frænku sinni.

(s. 75-76)