Þetta er ekkert alvarlegt

Útgefandi: 
Staður: 
Hafnarfjörður
Ár: 
1980
Flokkur: 

Úr Þetta er ekkert alvarlegt:

 Gamla konan tók velktan, brúnan poka upp úr innkaupatöskunni, sem hún hafði í kjöltu sinni, og gramsaði í honum smástund. Dró svo upp brjóstsykurspoka og valdi sér mola. Stakk honum upp í tannlausan munninn og saug af ákefð. Svo rétti hún pokann að konunni sem sat við hlið hennar. – Það veitti ekki af að reyna að hressa hana upp. Það var ósköp að sjá hvað hún var föl og gráskituleg.
 “Gjörðu svo vel, má ekki bjóða þér mola,” sagði hún vingjarnlega. “Þessir brúnu eru lang bestir. Það er súkkulaði innan í þeim. Ásta mín gefur mér alltaf poka fullan af sælgæti í nesti. Hún veit hvað ég er mikill sælkeri.”
 “Ómögulega takk,” sagði konan kuldalega.
 “Hvaða vitleysa. Blessuð vertu ekki með neina hæversku. Ég fæ poka í hverri viku þegar ég kem heim til þeirra Einars og Ástu. Nú ég prjóna sokkableðla á strákinn í staðinn eða bæti plöggin hans. Þótt Ásta segi að það séu allir hættir að ganga í bættum flíkum fyrir löngu. Nema með einhverjum skraut eða puntubótum. En hún þiggur það nú samt. Og er bara fegin sýnist mér. Enda ekki úr svo miklu að spila hjá þeim. Hann ennþá að læra og hún verður að sjá fyrir heimilinu. Hún er líka alltaf á hlaupum, eyminginn. Ekki hefði ég viljað vera í sporunum hennar. Og Einar minn, eins og pabbi hans sálaði, hálfgerður drumbur á heimili. Ég verð nú bara að segja það að mér finnst hann gæti hjálpað henni meira, stelpuskinninu, en hann gerir – þó hann sé sonur minn. Og sé alltaf að læra. Það er nú meiri lærdómurinn á fólkinu nútildags. En mér dettur ekki í hug að skipta mér af því – þetta er víst fullorðið fólk. Nú, hún segir svo sem að sér þyki bara gaman að þessu. Ætli hreint ekki að hætta þegar Einar er búinn að ná sér í þessa doktorsgráðu eða hvað það nú er. Nei, svo segir hún blessuð dúfan.”
 “Þær vilja þetta víst sjálfar þessar manneskjur.” Daufgerða konan gleymdi um stund hvað kellingin var skítug og leiðinleg. “Þeim finnst ekki nógu fínt að vera það sem bæði guð og náttúran hefur ætlað þeim. Nei. Það er ekki nógu merkilegt fyrir þær. Þær vilja ekki vera bara húsmæður. Þær heimta og heimta – meiri menntun – fleiri barnaheimili – því ekki nenna þær að sjá um börnin sín sjálfar – betri vinnu – hærri laun – jafnrétti – og guð má vita hvað. Og sjá svo vesalings börnin hjá þessum manneskjum – eða heimilin ...” Hún þagnaði þegar hún tók eftir því að allir í vagninum hlustuðu á hana með athygli. Jafnvel stelpurnar voru hættar að flissa og horfðu áfjáðar á hana.
 “Svona, svona – þær eru nú ekki svo slæmar skal ég segja þér,” sagði gamla konan umburðarlynd.

(s. 29-30)