Þegar sálin sér

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 


Úr Þegar sálin sér:

Ég er föst. Get ekki hreyft mig og get varla andað. Ég er lokuð inni og svitadropar leka niður andlitið. Samt er mér kalt. Ég skelf úr kulda. Það er mjög dimmt en þó rauð birta. Ég sé andlit ... andlit ... blá, starandi augu ... lítil augu sem horfa á mig ... en það er svo dimmt. Rauður bjarmi. Og lykt. Þung, kæfandi lykt sem smýgur inn í vitin eins og reykur. Ég vildi að lyktin færi ... og augun. Það eru vond augu. Ég heyri gný sem vex og vex og vex eins og heimurinn sé að hrynja. Svo hverfur hann og heimurinn hrynur ekki neitt. Það er óp í hálsinum á mér ... skerandi, óhugnalegt öskur ... ég heyri það í höfðinu en annars heyrist ekki neitt. Ekkert óp. Og bláu, vondu augun eru orðin rauð eins og bjarminn og augun mín eru að lokast. Ég er að sofna ... sef og get ekki vaknað. Ég sekk ofan í svefninn ... hrapa og hrapa ... dýpra og dýpra ... og allt í einu brýst ópið út úr höfðinu ... ramakvein sem bergmálar í hverri taug og smýgur inn í holdið. Ég fálma út í tómið með hamstola fingrum og gríp í eitthvað mjúkt. Ég hlusta á ópið deyja, finn svitadropana perla um allan líkamann og fyrir framan mig er hillan með gömlu dúkkunum. Ég er vakandi, ég sit kófsveitt og titrandi í rúminu mínu og held krampakenndu taki í sængina. Ég veit að það var ópið úr mínum eigin barka sem vakti mig og sennilega líka alla aðra í nærliggjandi húsum. Mig dreymdi – rétt einu sinni.
(s. 9-10)