Það sefur í djúpinu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1973
Flokkur: 

Sagan kom einnig út í bókinni Sannar sögur: Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og Það rís úr djúpinu.
Reykjavík: Forlagið, 1999. Sögurnar eru þar í endurskoðaðri útgáfu höfundar.

Úr Það sefur í djúpinu:

ekki loftleysið. ekki dauðinn. það er þetta gamla og innilokaða og sönglandinn. sálmavælið. það er það versta   hugsaði hún

Eftir stutta athöfn í kirkjunni - það sem engan glugga var hægt að opna, andrúmsloftið var þurrt og gerði fólk syfjað og sljótt á hörðum, bakháum bekkjaröðunum, sem negldar voru í skrautlausa veggina - tókst þeim að koma elzta íbúa bæjarins nokkurn veginn klaklaust í gröfina. Allt hafði gengið að óskum, eftir að gripið hafði verið til þess að aka kistunni, bundinni upp á farangursgrind skólabílsins, út í kirkjugarðinn. Allir aðrir bílar voru tepptir við að aka slori og fiski.

Loksins fékk hún hvíldina. Mikið skelfing held ég hún hafi þrælað og afrekað á langri ævi, sagði konan, sem hafði fylgt Önnu, eins og skuggi, í gegnum kirkjugarðinn með tali, sem hefði getað verið úr hennar eigin höfði og flöktandi hugsun.

Anna sneri sér við og sagði annarlegum, lágum rómi:

Þú ert ekkert annað en hugarburður minn.

Þessi skuggi af konu horfði undrandi á hana, opnaði munninn í angist og kom ekki út úr sér nokkru orði.

Á eyðilegum sandflákunum suður af bænum var kirkjugarðurinn eins konar gróðurvin, umlukt skrautlega máluðu gerði. Stólparnir voru málaðir í muskugrænum lit, en slárnar eldrauðar; hliðið hvítt með svörtum krossi. Inni í garðinum voru uppgróin leiði, laus við legsteina, krossa eða annað legskraut. Á öllum hornum garðsins, og báðum megin við hliðið, hengu lítil pappaspjöld, skorin úr skókössum, þar sem á stóð annað hvort Nýmálað eða Blautt. Sólin skein á vota málninguna, gljúpan sandinn og yfir úthafið í suðri, sem virtist vera örþreytt eftir tveggja sólarhringa vorbrim. Það ýmist stundi eða sefaðist við þungt bylgjusogið. Komið var næstum því logn.

(9-10)