Teitur tímaflakkari

Höfundur: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Myndir : Sigrún Eldjárn 
Úr Teiti tímaflakkara:

„Jæja, piltur minn, má ég kynna: Ég er hinn mikli vísindamaður, Tímóteus. Ég stefni að algjörum heimsyfirráðum, mikilli frægð og taumlausu ríkidæmi, hvað sem það kostar. Eftir skamma stund verður þú sendur í mjög mikilvægt njósnaferðalag sem verður örsmár liður í frægðargöngu minni.“
 Teitur rykkir í böndin sem festa hann við stólinn. Hann reynir að rífa sig lausan en ekkert gengur. Hann er blýfastur. „Ég er sko ekkert pilturinn þinn og ég læt ekki senda mig neitt sem ég vil ekki fara,“ segir Teitur þrjóskulega, en innst inni veit hann að það er alveg sama hvað hann segir. Tímóteus getur gert við hann hvað sem honum sýnist. Tímóteus þykist ekki heyra í honum.
 „Nákvæmlega núna, þessa dimmu nótt, er hárrétta augnablikið til að komast fram í tímann!“ segir hann ísmeygilega, nýr saman höndum og æsist allur upp við tilhugsunina. „Það eru ótal margir samverkandi þættir sem valda því að þetta og einmitt þetta er rétti tíminn. Sem dæmi má nefna að afstaða himintunglanna er með albesta móti, sjálfvirka framtímamælingatölvan sýnir nákvæmlega þær þrjár kvaðratrætur sem máli skipta, andrúmshitunarofninn er kominn í 225 gráður á bölsíus og sérmeðhöndluð x-vítamínpilla hefur legið í skáhallandi framgrænum leysigeisla í átta komma sjö mánuði. Það er því deginum ljósara að einmitt núna, það er að segja eftir nákvæmlega tvær mínútur og átján sekúndur, hefst þitt merka ferðalag.“
 Teitur veit ekki hvað hann á að halda. Honum rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Ætlar þessi vitleysingur í raun og veru að senda hann fram í tímann? Er það virkilega hægt? Og ef svo er, kemst hann þá nokkurn tíma aftur til baka?
(s. 34-37)