Tár paradísarfuglsins : bréf til mömmu

Útgefandi: 
Staður: 
Seltjarnarnes
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Tárum paradísarfuglsins: bréfi til mömmu:

Þú veist að ég leita þín alls staðar.
 Eina hrollkalda nótt fór ég að gröfinni og reyndi að særa fram önd þína en þú svafst í rotnandi holdinu.
 Í örvinglun leitaði ég til miðils, mamma. Hann var ungur og feitur með barnslega ásjónu. Við settumst inn í myrkvaða stofu og eftir drepandi sálmasöng sagðist hann sjá þig inni í herberginu. Ég skimaði um í glórulausu myrkri og heyrði rödd sem talaði til mín. Brjóst mitt fylltist von og óskasteinum en ég var ekki lengi í bíslagi paradísar því rödd þín var ekki sönn. Þá skynjaði ég strax að þrá mín og harmur höfðu fært mig í gildru loddarans. Ég hlustaði á blekkinguna sem hann spann og mér varð hugsað til þess hve vægðarlaus veröldin er. Þú áttir að vera alsæl og það gætti ekki nokkurs saknaðar hjá þér. þegar miðillinn hló fyrir þig vissi ég að þar voru aðeins búkhljóð ósvífinnar ótuktar.
 Ég spratt á fætur, kveikti ljósið, þreif í mannleysuna. Á örskotsstundu flaug hann óravegu úr dánarheimum til jarðar. Hann beið endalokanna með skelfinguna í augum, óttan við að hafna í þeim heimi sem hann sagðist lifa með annan fótinn í.
 Orð voru óþörf. Hann las úr augum mér trylling hins svívirta. Mér var ekki ætlað að sálga ófétinu þarna svo að ég tuktaði hann ögn til en rauk síðan á dyr. Hann á eftir aða hitta örlög sín á göngu einhvern dimman dag. Þá þarf hann ekki að óttast myrkrið framar. Mamma, hann varð eldskírður sonur myrkursins frá þeirri stundu er hann þóttist sjá bjarma hins guðdómlega ljóss.
 Ég ætla að ráðast á hann úr launsátri með flugbeittan rakhníf, skera úr honum Júdasartunguna og troða upp í hann blóðvolgum eistunum, þeim þráu girndarkirtlum Djöfulsins. Hvað er sælla en að rjúfa sjónhimnu hans með hvassri egg og kroppa í viðkvæm sjáöldrin sem skilja að myrkur er ljós?
 Miðlar eru ekkert annað en rödd andskotans, loddarar eða sefjúkir kjánar. Af vörum þeirra streymir hin myrka veröld blekkingarinnar.

(s. 38-39)