Tár, bros og takkaskór

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Tári, brosi og takkaskóm:

„Er andi í glasinu?“ spurði Elísabet með draugalegri röddu og gætti þess að tala mjög lágt. Kiddi fann hvernig hjartað í sér hamaðist og hann vonaði innst inni að ekkert gerðist. Það heyrðist ekki múkk frá krökkunum. Þau störðu öll á glasið og hringina sem var búið að teikna á spjaldið. „Ef glasið hreyfist, hlýtur einhver að svindla,“ hugsaði Kiddi með sjálfum sér. Hann leit á Agnesi og í fyrsta skipti sá hann hana alvarlega. „Er andi í glasinu?“ spurði Elísabet aftur og var engu líkara en spurningin hefði borist með vindinum inn um gluggann. Krakkarnir sátu stífir með puttann á glasinu og biðu eftir einhverju óvæntu. Skyndilega kom væg hreyfing á glasið og hræðslustuna heyrðist frá einhverjum. „Sko,“ sagði Elísabet lágt. „Ég vissi að eitthvað myndi gerast.“ „Hvern viltu finna?“ spurði Elísabet og spenntist öll upp. Glasið tók að mjakast til og krakkarnir litu hver á annan. Augun í Lalla voru eins og stórt spurningarmerki og hann átti erfitt með að halda handleggnum stöðugum. Kiddi vonaði að glasið færi ekki á nafnið hans því hann var orðinn dálitið hræddur. „Þetta er bara blöff. Þú hreyfir glasið,“ sagði Tryggvi og leit á Elísabetu. Hún neitaði því alfarið og til þess að afsanna það lyfti hún puttanum af glasinu sem hélt þó áfram að hreyfast. Tryggvi missti nánast andlitið og svipurinn á hinum krökkunum var áþekkur. Glasið hreyfðist í allar áttir en skyndilega fór það rakleiðis að stafnum A. Síðan leitaði það G-ið uppi og þegar það staðnæmdist á N leit Kiddi á Agnesi. Hún var greinilega orðin hrædd en reyndi að láta á litlu bera. Glasið stoppaði loks á E og S og fór síðan rakleitt á miðjuna á spjaldinu. „Hann vill tala við Agnesi,“ sagði Elísabet en hún var sú eina sem virtist hvergi bangin. „Eigum við ekki að hætta núna?“ spurði Lalli flóttalega en hann færði sig nær Tryggva eftir að hafa litið í kringum sig. „Þetta er rétt að byrja,“ sagði Elísabet og bætti við að það væri bannað að tala. „Hvað viltu henni?“ spurði Elísabet og leit af Lalla yfir á glasið. Kiddi fann hvernig Agnes iðaði á kollinum og hann ákvað að leggja vinstri handlegginn yfir axlirnar á henni til þess að róa hana. Hún reyndi að brosa til Kidda en átti mjög erfitt með það. „Hvað viltu Agnesi?“ endurtók Elísabet og augun í krökkunum urðu eins og undirskálar þegar glasið tók að hreyfast að nýju.

(s. 66-67)