Sýslumannssonurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1959
Flokkur: 

Úr Sýslumannssyninum:

- Er hann lítið heima, þessi eini sonur þeirra? - Nei, hann er alltaf heima á sumrin, en undanfarna vetur hefir hann stundað lögfræðinám í Reykjavík, og lauk embættisprófi í lögum fyrir rúmu ári. Hann er langhneigðastur fyrir sveitastörfin, enda munar um verkin hans, þegar hann er hérna heima. Hann stjórnar búinu að öllu leyti, því Þórður hefir aldrei verið hneigður fyrir slíka hluti, og sízt nú á síðari árum. - Það var mikið að hann tók þá ekki strax við búinu að loknu námi. - Já, ég var ekki lítið hissa á því, að hann skyldi fara að heiman síðastliðið haust, því hann hefði áreiðanlega ekki þurft þess neinna hluta vegna. En nú segir Hildur, að hann sé alkominn heim. Enda er það fyrir löngu ákveðið, að hann taki við sýslumannsembættinu, þegar faðir hans segir því af sér. Og Þórður vill víst gjarnan fara að losna við það. - Hvar vann þessi sonur sýslumannshjónanna síðastliðinn vetur? - Hann byrjaði að starfa í Reykjavík sem lögregluþjónn í fyrrahaust, og vann þar fram að jólum. En eftir áramótin tók hann svo við löggæzlu í einhverju sjávarþorpi út á landi, ég man ekki hvað Hildur nefndi það. Ástu er nú farið að gruna hið rétta, og hún segir nú: - Og hvað heitir svo sýslumannssonurinn? - Hann heitir Valur. - Það er fáheyrt nafn. - Já, ég þekki engan annan með því nafni. Ásta spyr ekki um fleira. Hún hraðar sér fram úr búrinu til þess að leyna roðanum, sem ósjálfrátt litar kinnar hennar fagurrauðar. Elín má sízt af öllu sjá hin snöggu svipbrigði á andliti hennar, og hún má engan grun fá um kynni þeirra sýslumannssonarins og eldhússtúlkunnar frá Sæeyri.

(s. 28-29)