Syndafallið

Syndafallið
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017

Um bókina

Syndfallið er ótrúleg saga Mikaels Torfasonar og foreldra hans, Huldu og Torfa.

Torfi er tröllaukin persóna sem veður í seðlum og brennivíni. Hulda er ýmist diskódrós í Breiðholtinu eða undirgefin húsmóðir í hópi Votta Jehóva. Bæði stefna hraðbyri norður og niður. En hvílík reisa!

Þessi daga er dagssönn. Óttalaust og oft bráðfyndið uppgjör við fortíðina, kærleikann og fjöldskylduna.

Úr bókinni

Mamma birtist okkur systkinunum aftur í febrúar 1979. Hún leit út eins og liðið lík. Hafði misst tíu kíló á þessum rétt rúma mánuði sem liðinn var síðan maður hennar hrasaði um aðra konu. Mamma hafði verið grönn fyrir, eiginlega alltof horuð, en núna kom hún engu ofan í sig.

„Þú verður að borða,“ var það fyrsta sem pabbi sagði við hana þegar hún stóð allt í einu við útidyrnar á blokkaríbúðinni okkar.

Mamma svaraði honum ekki. Hún hafði samþykkt að koma og sjá um okkur börnin. Að minnsta kosti eina helgi. Pabbi hafði hringt í Tótu systur hennar og beðið hana að segja Huldu Fríðu að við börnin söknuðum hennar og hún yrði að koma aftur heim.

„Hún getur ekki verið í felum að eilífu,“ sagði pabbi og Tóta lofaði að koma skilaboðunum á framfæri.

„Fyrst ég er komin, þá ferð þú,“ sagði mamma við pabba um leið og hún steig inn í íbúðina.

„Uss,“ sagði Ingvi við Lilju sem bað um að fá að hlaupa fram til mömmu. „Við bíðum hér,“ hvíslaði hann svo að henni og tók hana í fangið.

Ég stóð stífur og reyndi að hlusta á það sem fór á milli þeirra frammi. Eins og Ingvi. Hann var snillingur í að hlusta og vissi alltaf allt sem gerðist á heimilinu. Stundum hélt ég að hann væri skyggn. Alltaf vissi þessi átta eða níu ára gamli bróðir minn nákvæmlega hvað þau pabbi og mamma voru að segja. Og hann vissi að núna áttum við að bíða í herberginu okkar, fyrir framan kojuna, og standa grafkyrr þar til pabbi færi. Annars gæti allt sprungið út í hávaðarifrildi og mamma myndi kannski fara aftur.

Mamma hafði áður samþykkt að koma heim og ræða við pabba. Það endaði alltaf í öskrum og látum. Líka þegar öldungarnir komu og reyndu að tala um fyrir pabba. Mamma hafði vonast til að þeir myndu bjarga hjónabandinu, útskýrði Ingvi fyrir okkur Lilju inni í herbergi þá. Öldungarnir hótuðu pabba að hann yrði rekinn úr Vottunum fyrir hórdóm ef hann sneri ekki frá villu síns vegar.

„Hórdóm?“ sagði Lilja og Ingvi kinkaði kolli.

„Já, mamma er hóra. Ég er margoft búinn að segja þér það,“ sagði ég og Ingvi hristi höfuðið.

„Þið skiljið ekki neitt,“ sagði hann og ég þóttist skilja nákvæmlega hvað hann ætti við.

En nú þögnuðum við báðir því við heyrðum að útidyrunum var lokað. Það hlaut að merkja að pabbi væri farinn. Við stóðum fyrir framan kojurnar og störðum á herbergishurðina. Tíminn virtist standa í stað. Það var eins og þessar dyr ætluðu aldrei að opnast. Bara ef mamma myndi opna og kasta sér niður á hnén fyrir framan okkur, hugsaði ég með mér. Þá myndum við hlaupa í fangið á henni og hún myndi halda svo fast utan um okkur að við næðum varla andanum.

„Ég elska ykkur svo heitt,“ myndi hún segja og hljóma eins og kúgaðar mæður á nítjándu öld. Þannig var mamma og þannig upplifði hún stöðu sína, með réttu eða röngu. Lífið og Vottarnir og pabbi höfðu brotið hana algerlega niður.

(55-6)