Sykur og brauð : þættir og greinar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Safnið inniheldur eftirfarandi greinar:

Lífið miðjarðar
Miðnætti
Borg út í mýri
Morgunstund fullorðinna
Lokabaráttan er endalaus
Í Reykholti
Í laugunum
Saga úr snjónum
Framkvæmdastjóri hátíðarinnar
Gestaþraut
Manngangur
Í afahúsi
Af vígvellinum
Í Undralandi
MM enn
Við sundin grá
Frelsi með hættu
Biðstaða
Ferðalýsing
Líf í læknis hendi
Næstsíðasti dagur ársins
Skáldskapur í skóla
Úrkomur Antons Helga
Áttu prógram?
Staðlausir stafir
Norðan við frið
Allt fyrir útsýnið
Gagntekjur
Áramótapælingar
Skólaferð
Mannsæmandi líf SF
Úr hernámunni
Raunsæi skáldskapur veruleiki
Fjölmiðlavíl
Lífið og tilveran
Bernskan ný bóla?
Gamli bærinn
Um aðdraganda og tilurð punktsins
Útvarpspistlar
Lesmál/sjónmál
Bókmenntaarfurinn (Dánarbúið)
Söguhöllin
Er bara líf í bókum?

Úr Sykri og brauði:

Útvarpspistill II

Vitur maður (gott ef ekki skáld) hefur sagt að miðöldum hafi lokið á Íslandi með tilkomu sæsímastrengsins árið 1906. Þar með hafi Íslandi verið stungið í samband við umheiminn. Fram til þess má segja að erlendar fréttir hafi verið tvisvar á ári: haustskip og vorskip - og fréttaflutningur eins og steinn sem fellur í vatn: greinilegastur næst miðju en þynnist út til jaðranna. Kóngurinn gat látist um haust en hélt samt áfram að lifa góðu lífi á Íslandi til vorsins, þvð var meira að segja haldið upp á afmælið hans og hrópað: ,,Hann lengi lifi! Við getum til samanburðar ímyndað okkur morðið á Kennedy í nóvember, eða Lennon í desember - þeir hefðu verið sprellifandi á Íslandi fram í júní næsta ár.

Í dag hefur atburður náð um heimsbyggð alla aðeins örfáum sekúndum eftir að hann hefur gerst. Einmitt núna sitja hundruð milljóna með helmingi fleiri augu á sama hvíta boltanum, allir að horfa á beina útsendingu frá heimsmeistarakeppninni í Mexíkó.

Sæsímastrengur, útvarp, sjónvarp - það er lýsandi á hve skömmum tíma þessar stökkbreytingar í mannlegum samskiptum hafa riðið yfir að áttræður Íslendingur rúmar þessi tímamót öll í ævisögu sinni. Af þeim hefur tilkoma útvarps árið 1930 vegið þyngst sálfræðilega. Með útvarpinu komast landsmenn loks í samband hverjir við aðra, Hornfirðingar og Hornstrendingar vera nágrannar og fá umheiminn í kaupbæti. Það var eins og híbýli manna víkkuðu út þegar þau tóku að fllast af prelúdíum og fúgum og veðurfréttum að viðbættri sjálfri Atburðarásinni sem hafði tekið sér bólstað á hverju heimili með jafn eðlilegum hætti og rennandi vatn eða rafmagn.

Sjónvarpið 1967 virðist ekki hafa táknað jafn róttæk kaflaskipti í sálarlífinu. Sjónvarpið gerði í raun og veru ekki annað en úthverfa myndina sem börnin vissu allan tímann að var inní í útvarpinu. Aftur á móti táknar sjónvarpið gagngera uppstokkun á húsgögnum. Stofuborðið fræga þokaði af vettvangi til að brjóta ekki sjónlínuna. Stofustólarnir röðuðu sér upp andspænis tækinu. Sjónvarpið breytti einnig lýsingu híbýlanna, stafaði draugalegri birtu og hafið tilhneigingu til að virka eins og lömun á heimilislífið, menn sátu stjarfir í stólum sínum.

Á sínum tíma setti útvarpið kvöldvökuna út í kuldann; með tilkomu sjónvarps þokast útvarpið í bakgrunn, það flyst úr stofu inn í eldhús og skreppur jafnframt saman að umfangi. Úr stofumubblu í fisléttan stokk uppi á ísskáp. Útvarpið er orðið svo lítið mál að það er na´nast runnið saman við vekjaraklukkuna, bílinn, já úrið.

Skyldi sjónvarp eiga eftir að þoka fyrir einhverju öðru? Minnka niður í vasaútgáfur, jafnvel skjóta upp kollinum í vasatölvum. Verða algert aukaatriði?

Með fjölgun útvarps- og sjónvarpsrása tekur fyrir þá samsteypu sem þessir miðlar hafa hingað til orsakað: að samtengja alla í SAMA efni, steypa alla í sama mót. Með gervihnattasendingum og myndbandavæðingu kann að koma upp sú staða að engir tveir horfi á sömu dagskrá. Við erum þá komin í hring frá því fyrir daga fjölmiðlunar þegar hver og einn lifði í eigin hugarheimi.

(146-7)