Sveigur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Hér er sögð saga Guðmundar skálda, fátæks drengs á 13. öld sem elst upp við kröpp kjör en kemst til vits með munkum þar sem hann lærir til bókar. Fulltíða maður lendir hann í slagtogi með helstu höfðingjum aldarinnar, þar á meðal Sturlu Sighvatssyni. Hann verður vitni að mörgum örlagaríkustu atburðum borgarastyrjaldarinnar sem kennd er við öld Sturlunga en tekst að lifa af og endar ævi sína nærri valdsmönnum og höfuðskáldum.

Úr Sveig:

Umskiptingur

Þegar drengurinn heyrði fyrst orðið umskiptingur spurði hann bróður Krák Eymunason hvað sé umskiptingur.
 Bróðir Krákur studdist við rekuna og pállinn lá hjá í arfahrúgu á meðan.
 Hann var búinn að koma hellu undir hnullunginn sem hann hafði verið að losa upp úr túninu og var feginn að hvíla sig á átökunum.
 Hann segir drengnum frá því að stundum komi vættir eða heldur óvættir og leiti færis að kippa með sér ungabörnum og helzt brjóstmylkingum, og láta eftir liggja orm sinn, hrínandi þegar að er gáð, og ókennilegan orðinn sökum óspektar. Þá er sagt að það muni vera umskiptingur.
 En drengurinn hugsaði hvort það þyrfti að vera til hins verra. Er einhver hemja á því, hver geti skipt? Gæti ekki einhver borið frá sér barn sem ylli áhyggjum vegna pastursleysis og ódöngunar? Og leitaði eftir að fá í staðinn barn sem væri frekar setjandi á.
 Var hann kannski umskiptingur? Hvenær? Hver skipti um? Og af hverju? Það hvarflaði að honum að vinur hans í steininum væri kannski bróðir hans. Kom hann kannski sjálfur úr stóra steininum í hvamminum sem var nú læstur?
 Þegar hann kom að og vildi bera sig saman við leikfélagann var steinninn nú hrokkinn aftur. Og kannski allir fluttir burt. Hann sat þar stundum enn. Og saknaði vinar síns úr leikjum bernskunnar.
 Og var kannski ekki sjálfur lengur barn. Hver verð ég þá við það? Verður aftur skipt á mér?
 Svo gleymdist þetta aftur og önnur orð taka hug hans. Einsog orðið ördragi einsog honum sjálfum væri skotið af þungsveigðum boga. Skotið af syngjandi streng. Örvardragi, í eitthvað nýtt. Frjáls af því fyrra. Og stóð þá í slíkum sporum einsog ör titrandi í túninu.
 Allt var létt og uppnæmt, í háu grasi sem niðaði allt í kringum hann ókenndri kveðandi vindsins, ör fjaðrandi í túni og hágresinu, áður en sláttumaðurinn nálgast með nýbrýndan ljá. Og nálgast æ, með stærri skára að fella grasið; og gljáir á stráin fallandi til að færa í flekki með hrífunum. Og sláttumaðurinn snarstanzar við að sjá þessa ör fara aftur að titra.
 Drengurinn hugsar: Örin, mér fannst hún standa þarna, á örlagastundu, einsog væri ég sjálfur og skotinn væri af streng sem söng við bragðið, og frá því, og band sem ég óttaðist og vildi forðast; út í frelsandi óvissu.
 Hvað? Að geta leynzt. Án þess að þurfa að deyja. Verða ósýnilegur. Og vera þó til áfram. Fá að hlusta til að heyra; horfa og sjá.
 Huliðshjálmur var nýtt orð; einhvers staðar, það hlaut að vera í klaustrinu einsog flest að hann heyrði það orð.
 Já, huliðshjálmur.

(s. 69-70)