Svartur sjór af síld : síldarævintýrin miklu á sjó og landi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Svartur sjór af síld

Konungur fiskanna

Einu sinni var illa komið í ríki fiskanna. Ekkert skipulag og enginn agi. Einn synti til vinstri, annar til hægri, þriðji upp og fjórði niður. Samstarf þekktist ekki. Stórir fiskar óðu uppi og virtu ekkert nema eigin mátt og megin en smáfiskar máttu sig vart hræra af ótta við að verða étnir. Loks sáu vitrustu fiskarnir að við svo búið mátti ekki standa og sögðu: ,,Við verðum að velja okkur konungsem heldur uppi röð og reglu í ríkinu, kennir okkur að starfa saman og virða hver annan. - Þetta fannst öllum vitru fiskunum mjög viturleg tillaga. ,,En hvaða fiskur er búinn þessum kostum? spurðu þeir. Um það urðu þeir ekki sammála enda fannst sérhverjum þeirra hann sjálfur vera rétti fiskurinn til að verða konungur. Og svo fóru þeir í hár saman: Steinbíturinn beit í sporðinn á lúðunni, lúðan glefsaði í þorskinn, hornsílið stangaði ýsuna en aumingja kolinn varð svo hræddur að hann lét sig sökkva til botns og mokaði yfir sig sandi svo ekert sást af honum nema augun. Hinir fiskarnir rifust og slógust allan þennan dag. Undir kvöld voru þeir orðnir svo uppgefnir að þeir gátu ekki lengur opnað kjaftana og sigu til botns. Þar lá kolinn og lét ekki á sér kræla. Lúðan var orðin svo fúl yfir að öllum skyldi ekki finnsat sjálfsagt að hún yrði konungur fiskanna að hún sneri hvítu og augnlausu hliðinni upp. Hún ætlaði aldrei að virða þá viðlits framar.

Þegar kolinn sá að hinir fiskarnir voru orðnir of þreyttir til að vinna honum mein spyrnti hann sér upp úr sandinum. Hann hefur augu á þeirri hliðinni sem snýr upp og sér því vel upp fyrir sig. Og nú sá hann einkennilega sjón: Langt fyrir ofan glitraði sjórinn og tindraði, sveigðist og bylgjaðist. Þegar hann aðgætti betur sá hann að þetta var ótöluleg mergð silfurfiska og hann kallaði niður til hinna: ,,Síldin er komin. Og þar sem hinir fiskarnir höfðu ekkert annað að gera litu þeir upp og horfðu á síldina. Meira að segja lúðan lét sig hafa það að velta sér á réttu hliðina og horfa upp fyrir sig enda alltaf dálítil tíðindi þegar síldin kemur. Þeir horfðu í djúpri þögn á þessa ótrúlegu mergð fiska sem héldu sig þétt saman og glitruðu eins og silfur. Þegar einn fiskur synti til vinstri gerðu hinir það líka, þegar annar synti til hægri geru hinir það líka. Enginn synti upp og enginn niður án þess að hinir gerðu nákvæmlega eins. Og eir voru svo fagurlega lagaðir og sprettharðir að annað eins þekktist varla. Þá sagði lúðan: ,,Við gerum síldina að konungi vorum. Og hinir fiskarnir tóku undir í einum kór. Þannig atvikaðist það að síldin varð konungur fiskanna.

Þetta ævintýri sagði gamall færeyskur sjómaður þeim sem hér heldur á penna fyrir meira en þremur áratugum. Seinna rakst höfundur á þetta sama ævintýri í einfaldri mynd. Frásögnin um hvernig síldin öðlaðist konungdóm er vafalaust til í mörgum útgáfum. Það er einkenni lifandi ævintýra að menn laga þau í hendi sér. En ævintýri og þjóðsögur verða ekki til nema um það sem vert er um að tala. Enda hefur síldin, þessi fagri og dyntótti fiskur, verið samrunnin lífi fjölda þjóða og haft örlagaríkari og margslungnari afleiðingar í sögu þeirra en aðrar sjávarskepnur.

(7-8)