Svanurinn

Svanurinn
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Svaninum

Stingdu þér, þorðu að deyja, sagði hún hvíslandi við sjálfa sig og fann vatnið lykjast um sig, svalt og unaðslegt, því öllu var lokið.

Líkami hennar leystist upp og hvarf í blámann. Nálægð dauðans gerði hana ringlaða og líkt og í öðrum heimi.

Núna er aðeins tæpt spor á milli lífs og dauða, hugsaði hún. Ó, stígðu það. Svona, stígðu fram fyrir fullt og allt og stökktu í gröfina.

Flugurnar suðuðu. Andvarinn fyllti loftið af blómailmi og eflaust voru fuglarnir að syngja í tísti sínu um það hvað lífið er hverfult en yndislegt.

Á ég að stíga sporið? spurði hún, lyfti fæti, teygði hann fram og sá slitinn skósóla speglast í vatninu.

Vitneskjan á barmi mógrafarinnar um hvað það er örstutt á milli lífs og dauða lamaði hana og hún lagðist allt í einu örmagna á jörðina. Það var svo auðvelt að hætta að eiga aðra framtíð, enga aðra en þá örstuttu, andartakið sem tæki hana að stíga hálft spor með öðrum fæti yfir bakkann að endalokunum í vatninu. Dauðinn er svo einkennilega skammt frá lífinu. Hann fylgir því fast eftir, hann fæðist með því. Stundum leiðir hann ævi manns. Og það er hægt að ganga frá lífinu inn í dauðann, en það er engin leið að snúa frá honum aftur til lífsins nema aðeins einu sinni: aðeins þegar maður fæðist.

Við þessa skynjun fann hún hita frá gráti í augunum án þess að hún gréti. Alheimurinn sveif til hennar. Loftið þrýsti henni að þeirri jörð sem gat ekki þrýst henni að sér sjálf með eigin vilja. Hún lá bara máttvana í grasinu og fann hvernig jörðin faðmaði hana í huganum af því að hún lét hana gera það. Í raun og veru verður maður að gera allt sjálfur, skynjaði hún. Enginn er meiri og sannari vinur manns en maður sjálfur. Allir verða að smíða í huganum handa sér tilbúna arma úr því efni sem þeim er tiltækt hverju sinni og þeir rekast á, ef þeir vilja njóta faðmlags þess sem þeir þrá.

(s. 42-43)


Milan Kundera: Svanurinn

Skáldsagan Svanurinn eftir Guðberg Bergsson kom út hjá stærsta bókaforlagi Frakklands, Gallimard, haustið 1996. Af því tilefni skrifaði tékknesk-franski skáldsagnahöfundurinn Milan Kundera grein í vikuritið Le Nouvel Observateur:

Ung stúlka hnuplaði samlokum í stórmörkuðum í Reykjavík. Til að refsa henni senda foreldrar hennar hana í nokkra mánuði út í sveit til ókunnugs bónda. Í gömlu Íslendingasögunum frá 13. öld voru stórglæpamenn sendir á sama hátt inn í óbyggðir, en á þeim tíma jafngilti það dauðadómi, enda landið gríðarstórt, kalt og óbyggt. Ísland: 250. 000 íbúar á 100.000 ferkílómetrum. Til að rjúfa einangrunina (ég tek dæmi um lýsingu úr skáldsögunni) beina bændurnir kíkjum sínum út í fjarskann og horfa á aðra bændur sem einnig eru búnir kíkjum. Ísland: eingangrað fólk sem fylgist hvert með öðru.

Hver einasta lína í Svaninum, þessari æsku- og skálkasögu, angar af íslensku landslagi. Samt bið ég ykkur umfram allt um að lesa hann ekki sem “íslenska skáldsögu” , eins og eitthvert framandi furðuverk! Guðbergur Bergsson er mikill evrópskur rithöfundur. List hans byggist ekki fyrst og fremst á félagsfræðilegri eða sagnfræðilegri forvitni, og þaðan af síður landfræðilegri, heldur af tilvistarlegri leit, tilvistarlegri dauðaleit sem gerir það að verkum að bók hans er í miðju þess sem (að mínum dómi) mætti kalla hið nútímalega við skáldsöguna.

Markmið leitarinnar er hin kornunga söguhetja (“la petite” eins og hún er nefnd í hinni fallegu frönsku þýðingu), eða nánar tiltekið aldur hennar: níu ára. Mér verður æ oftar hugsað til þess að öll reynsla okkar í lífinu sé, þegar öllu er á botninn hvolft, spurning um aldur. Maðurinn er eingöngu til í hinum áþreifanlega aldri sínum, og allt breytist með aldrinum. Að skilja annað fólk þýðir að skilja aldursskeið þess. Gátan um aldurinn: eitt þeirra viðfangsefna sem aðeins er hægt að upplýsa í skáldsögu. Níu ára: mörkin milli æskunnar og unglingsáranna. Aldrei hefur jafnskýrri birtu verið brugðið á þau mörk eins og í þessari skáldsögu.

Hvað þýðir það að vera níu ára? Það er að ganga áfram þokukenndum draumaheimi. En þó ekki í ljóðrænum draumaheimi. Það er síður en svo verið að fegra æskuna í þessari skáldsögu! Það að láta hugann reika, gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn er aðferð telpunnar til að takast á við ókunnarn og illskiljanlegan heim.

Fyrsta daginn í sveitinni stendur hún frammi fyrir framandi og að því er virðist fjandsamlegum heimi, og þá ímyndar hún sér að hún verji sig “sendi hún í skyndi úr höfðinu ósýnilegt eitur um allt húsið. Hún eitraði herbergið, fólkið, dýrin, gróðurinn og loftið...” Hún getur ekki áttað sig á raunverulega heiminum nema með því að beita hugarfluginu. Vinnumaður sefur í sama herbergi og hún; hann er óhamingjusamur og á eftir að enda illa; hann léttir á hjarta sínu við telpuna eingöngu vegna þess að hann veit að hún getur ekki skilið hann. Svo er það dóttir bóndans; okkur grunar að ástarsaga sé orsök þess hversu afbrigðilega hún hagar sér; en telpan, hvað getur hana eiginlega grunað? Það er haldin mikil hátíð í sveitinni; pörin dreifa sér um móana; telpan sér hvernig karlarnir hylja konurnar með líkama sínum; þeir eru eflaust að skýla þeim fyrir hugsanlegum skúrum: enda himinninn þungbúinn.

Fullorðna fólkið er sífellt upptekið af veraldlegum áhyggjum sem ýta burt öllum háspekilegum spurningum. En telpan er fjarri veraldarvafstrinu. Ekkert skilur hana frá spurningunum um lífið og dauðann. Hún er komin á háspekilegan aldur. Hún hallar sér yfir mógröf, virðir fyrir sér eigin spegilmynd á bláu vatnsborðinu: “Líkami hennar leystist upp og hvarf í blámann(...) Á ég að stíga sporið? spurði hún, lyfti fæti, teygði hann fram og sá slitinn skósóla speglast í vatninu.” Hún veltir dauðanum mikið fyrir sér. Það á að fara að slátra kálfi. Alla krakkana langar að fylgjast með þegar honum er slátrað. Nokkrum mínútum áður en honum er slátrað hvíslar telpan í eyra honum: “Þú átt að deyja og hætta að vera til. Veistu það?” Þetta finnst öllum krökkunum bráðfyndið og fara hvert á fætur öðru og hvísla því að kálfinum.

Kálfurinn skorinn og nokkrum klukkustundum er síðan öllum boðið að setjast til borðs. Börnin eru himinlifandi að fá að tyggja líkamann sem þau höfðu séð lógað. Að máltíðinni lokinni hlaupa þau til kýrinnar, móður kálfsins. Telpan veltir fyrir sér: gerir hún sér grein fyrir því að við erum að melta afkvæmið hennar? Og hún fer að anda með opnum munni að grönum kýrinnar. Tíminn milli barnæskunnar og unglingsáranna: ekki er lengur þörf fyrir stöðuga umhyggju foreldranna og því öðlast maður skyndilegt sjálfstæði; þar sem maður er enn ekki stiginn inn í veraldarvafstrið finnur maður fyrir því hversu gagnslaus maður er.

Telpan finnur þetta mun betur en aðrir þar sem henni hefur verið holað niður hjá vandalausum. Þrátt fyrir það, enda þótt hún sé gagnslaus, heillar hún annað fólk. Hér er ógleymanlegur kafli: Dóttir bóndans er illa haldin af ástarsorg, fer út á hverri nóttu (bjartri íslenskri sumarnóttu) og sest niður við ána. Telpan, sem fylgist stöðugt með henni, fer líka út og tyllir sér niður langt að baki henni. Þær vita hvor af annarri en hvorug segir orð. Síðan bendir stúlkan henni að koma til sín. En telpan vill ekki hlýða og snýr heim á bæ. Hversdagslegur, látlaus, en magnaður kafli. Ég sé stöðugt fyrir mér þessa uppréttu hönd, merki sem fjarlægar verur senda hver annarri, verur sem þurfa einungis að senda á milli sín þessi skilaboð: ég er hér; og ég veit að þú ert þarna. Þessi upprétta hönd, það er handarhreyfing þessarar bókar sem fjallar um löngu liðið aldursskeið sem hvorki er hægt að endurskapa né endurlifa, tilgangslaus handarhreyfing, dapurleg og óendanlega fögur eins og gervöll þessi skáldsaga sem skildi eftir í mér langt, mjög langt bergmál hrifningar.

Friðrik Rafnsson þýddi.