Sumar við sæinn

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1979
Flokkur: 

Úr Sumari við sæinn:

„Óþokki, þér skal aldrei takast það, slepptu mér strax.“ Hún ætlar að hrópa á hjálp, þótt enginn sé sjáanlegur, en Kormákur lokar munni hennar með frekjulegum kossi, og henni finnst hún ætla að kafna. Hún brýzt um af öllu afli, og brátt nær hún því að geta hljóðað fullum rómi. En Kormákur reynir þegar að draga hana af stað með sér, og leikurinn berst út fyrir götuna. Þar verða nú miklar stympingar. Hún neytir allra tiltækra ráða til að sleppa frá honum, en finnur, að hann er yfirsterkari. Hún fyllist ofsalegri skelfingu, en hún skal aldrei gefast upp fyrir Kormáki, á meðan hún getur nokkuð. „Hjálp, hjálp,“ hrópar hún af öllum kröftum. „Ef þú steinþegir ekki, skal ég láta þig gera það,“ hvæsir hann ógnandi framan í hana. En í sömu andrá kemur ungur maður hlaupandi til þeirra, eins og hann hafi sprottið upp úr jörðinni þar rétt hjá. Hann segir fast og skipandi á vel skiljanlegri íslenzku, um leið og hann nemur staðar við hlið Freyju Hrannar: „Slepptu stúlkunni strax.“ Kormákur bergður illa við þetta óvænta ávarp. Hvaðan kom þessi náungi eiginlega, hugsar hann, en linar hvergi á tökum sínum. Hann lítur vonzkulega á piltinn, en þekkir hann ekki, og það er auðheyrt á mæli hans, að hann er útlendingur. „Þér kemur þetta ekkert við, burt með þig, flækingur,“ hrópar Kormákur, æfareiður. „Burt með þig.“ „Slepptu stúlkunni,“ skipar pilturinn, hvergi smeykur, „eða ég....“ „Eða þú hvað?“ „Losa hana úr klóm þínum.“ En Kormákur gerir sig ekki neitt líklegan til þess að sleppa bráð sinni. Þá bíður pilturinn ekki boðanna. Hann gengur hiklaust til liðs við Freyju Hrönn og losar hana úr greypum Kormáks. En um leið og Kormákur hefur misst af henni, ræðst hann á piltinn, viti sínu fjær af reiði. „Ég skal jafna um þig,“ öskrar hann og ætlar að greiða piltinum högg í andlitið, en hinn nær að grípa um hendur hans, áður en höggið ríður af, og heldur honum síðan föstum.

(s. 28-29)