Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Endurútgefin 2006.

Úr Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma:

Hið nýja og óvænta er að félagi minn sé eini tíminn sem ég vil hrærast í fullkomlega: hlýjan er tími sem eyðir og heftir. Hve oft hef ég ekki farið í óljósu hugarástandi heim og breytt konunni í þig þegar ég heilsa henni með kossi sem þú varst í og um leið áttum við þig sameiginlega í bragði á vörunum án þess að hún hefði hugmynd um það; en ég sagði við hana í hljóði: Héðan í frá eigum við ástvin minn í hverju atloti, í hvert sinn sem við liggjum hlið við hlið eða hvort í öðru eða ég í þér. Þá er vinur minn þar þótt þú merkir það aðeins í efldum krafti mínum. Ég verð tveggja manna maki í ást minni á þér, í öllu sem ég geri. Ég hlakkaði til svefnsins á eftir og langaði að eiga þau bæði í draumi en þau hurfu eða gátu aldrei hist og allt í einu kom andvaka yfir mig klukkan fimm að morgni. Ég hrökk í kút og lá glaðvakandi og fylgdist með því hvernig raunalegur dagur braut sér leið löturhægt að gráum gluggatjöldunum í svefnherberginu okkar. Núna heyri ég að hún andar rótt í svefni og ég þori ekki að bæra á mér til að styggja ekki drauma hennar og værð. Stundum er ekkert í jafn mikilli fjarlægð og líkamar sem hafa verið vígðir í kristinni trú uns dauðinn á að aðskilja þá. Þeir hvíla í sama rúmi, annar sefur rótt en hinn liggur andvaka við hliðina án þess að sá sem sefur viti um angistarfulla vöku þess sem þolir kvöl í grasagarði ástar og sálar. Hversu oft hef ég reynt undir morgun líkt og í örvæntingu að krossfesta mig á líkama konunnar minnar, en þótt blóð og vatn kunni að renna út fylgir því engin himnesk sæla og enn síður innganga í ríki föðurins. Geturðu ekki vakað með mér rétt á meðan ég skrepp til annars; ég kem aftur endurnærður og nærgætnari! Þetta hef ég gefið hvað eftir annað í skyn með atlotum mínum en hún finnur ekkert og það sannar að hún er ónæm á mig. Síðan svíkur boðberi ljóssins mig í morgunsárið með kossi dagsins og ég hverf með hugsanir mínar til myrkra langana. Er því að undra að í stað þess að ónáða konuna sem hvílist og sefur láti ég mér nægja að dreyma í andvökunni að undir kvöld næsta dags komi vinurinn til að krossfesta mig á líkama sínum? Einu sinni sagði ég honum frá hugsanaflakki mínu eitthvað á þessa leið: Væri ég Kristur og rómverskir hermenn ættu að krossfesta mig og segðu að ég fengi áður uppfyllingu einnar óskar á sama hátt og aðrir dauðadæmdir menn, þá mundi ég óska mér þess að kvalararnir krossfestu mig á líkama þínum og að naglinn þinn væri rekinn í mig allan. Stendur þetta í Biblíunni? spurði hann feimnislega glaður yfir að kannski væri eitthvað til um hann á prenti. Nei, svaraði ég. Við höfum ekki þekkst það lengi.

(s. 62-63)