Stúlkan sem enginn saknaði

Stúlkan sem enginn saknaði
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um bókina

Önnur bókin í seríunni Eddumál.

Ískaldan febrúarmorgun er stúlka stungin með hnífi þar sem hún situr á bekk við Ægisíðuna. Örskömmu síðar á eftirlaunaþeginn Edda leið fram hjá. Hún lætur sér ekki nægja að kalla í lögregluna heldur ákveður að rannsaka málið sjálf.

Um sama leyti leggja hjón og uppkomin dóttir þeirra af stað til Íslands, föðurlands húsmóðurinnar. Þar hyggjast feðginin sækja ráðstefnu en dvölin verður martraðarkennd fyrir konuna sem trúir Eddu fyrir viðkvæmu fjölskylduleyndarmáli.

Úr bókinni

Flautið í tekatlinum skakkaði undirfataleikinn. Annabella fleygði rauða settinu aftur ofan í pokann og við tók hvunndagsleg teuppáhelling. Vilborgu leið eins og hún hefði villst inn í óhugnanlega hliðarveröld og síðan hrokkið út úr henni aftur. Hafði hún séð Önnubellu hafa í frammi kynferðislega tilburði við Alonso - og hann láta sér það vel lynda - eða hafði hún dottað við eldhúsborðið og ímyndað sér þetta?

Annabella hellti sjóðandi vatni yflr telaufín í leirkatlinum. Svo bar hún ketilinn varlega að eldhúsborðinu, náði í mjólk úr ísskápnum og teygði sig í litla könnu sem stóð uppi á hillu.

Vilborg ræskti sig og hreyfði drykkjarkrús um nokkra millimetra til að kanna hvort hún væri örugglega með meðvitund og hreyfigetu. Jú, ekki bar á öðru. Hún virtist vakandi og hafa stjórn á líkamanum. En hún virtist enn ósýnileg í augum Önnubellu sem brosti kankvís til föður síns um leið og hún setti mjólkurkönnuna á borðið.

„Pabbi, veistu hvað mamma heitir á ensku?“

Alonso hugsaði sig um smástund.

„Hún mamma þín heitir bara einu nafni og það er íslenskt," svaraði hann loks. „Vilborg.“

„Hún heitir Mistök.“

Vilborg starði á dóttur sína og reyndi máttleysislega að malda í móinn.

„Hvaða rugl er... ?“

„Alveg satt, pabbi. Ég gúgglaði. Villa, gælunafnið hennar mömmu, þýðir Mistök.“ Stelpan horfði í augu Vilborgar þegar hún spýtti síðasta orðinu út úr sér.

Nú segir þú eitthvað, Alonso, hugsaði Vilborg, of slegin til að geta sjálf borið hönd fyrir höfuð sér. Nú kemur þú mér til varnar! En hann hristi bara höfuðið, eins og Annabella hefði sagt lélegan brandara, og teygði sig í teketilinn.

(48-9)