Stúlkan í skóginum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Stúlkunni í skóginum:

-Viltu kaffi? Spurði hún.
- Já, svaraði ég.
Ég horfði á líkama minn speglast í gljáandi gólfflísunum. Spegilmynd gestgjafa míns sá ég ekki. Ég var grá þúst í þessu hvíta eldhúsi og feimnin lét ekki á sér standa. Hún teygði hendur sínar í áttina til mín. Ég laut höfði, lygndi aftur augunum og rauðir fuglar hugsana minna komu til mín þar sem ég sat við þetta ókunnuga borð og óbeðnir sungu þeir mér lagið um rósirnar sem vaxa við opið hlið himinsins. En þegar tónarnir ómuðu í eldhúsinu hvarf feimnin sína leið inn í skóglendi huga míns, breyttist í tré og beið mín. Tilfinningar mínar búa í skógi, hver um sig tré, nært af mold og lofti. Ég varð aftur kát og skoðaði í kringum mig.
Það draup látlaust úr fægðum krananum. Vatnsdroparnir urðu högl og skullu á stálbotni vasksins. Höglin rákust saman og það gneistaði frá þeim svörtum stjörnum. Hvell hljóðin þutu um í höfðinu og þurrkuðu burt hugsanir mínar. Ég tók fyrir eyrun. Allt varð hljótt.
En konan sem bauð mér í kaffið skrúfaði fyrir kranann. Stjörnurnar hurfu og hugsanir mínar kviknuðu á nýjan leik, leitandi og bjartar. Og ég, gesturinn í þessu kaffiboði sem ekki var byrjað, fagnaði lífi þeirra. Ég horfði á hana og hún sneri baki í mig. Við þögðum báðar og þögn okkar var kyrr. Brátt mundu orðin rjúfa hana. Hennar orð og mín. Ég var róleg, kunni að bíða.
Í horninu við vaskinn lá sópur upp við vegg. Hún tók um skaftið, studdi sig fram á það, sneri enn í mig bakinu, leit svo útundan sér á hendur mínar. Ég bjó til hrútshorn með fingrum hægri handar og lokaði augunum. Rósirnar bærðust í lagi fuglanna og ský hrönnuðust upp við hliðið. Hún horfði enn á hendur mínar. Þær voru breiðar og þykkar. Fingurnir stuttir. Ég bjó í snatri til annað hrútshorn með fingrum vinstri handar og var enn með lokuð augun að virða fyrir mér skýin þegar hún sagði alúðlega með lágri nokkuð dimmri rödd:
- Viltu kannski frekar te en kaffi?
- Nei, þakka þér fyrir, svaraði ég.
- Þú hefðir náttúrlega helst viljað vín?
- Nei.
- Ég hefði boðið þér vín hefði ég átt það. Ég býð fólki vín ef ég á það til, sagði hún og var snögg upp á lagið einsog ég hefði dregið í efa að hún byði fólki vín ætti hún það til. Mér kom það ekki til hugar. Þetta var ekki það sem ég beið eftir að hún segði við mig og hljómur raddar hennar var ekki sá sem ég hafði vænst. Ég varð undrandi. Orð hennar voru smá, teningslaga og hljómurinn þurr. Ég var ekki róleg lengur. Hún var mér ókunnug. Ég hafði þegið kaffiboð ókunnugs gestgjafa og vissi ekki hvað beið mín. Hvaða orð biðu mín. Hvaða spurningar. Ég horfði á hendur mínar og mundi að í draumi fyrir þremur nóttum hafði ég haldið á perlu. Ég hafði brotið skel og horft á perluna glitra í lófa mínum og í undrun hafði ég misst hana í hvítan fjörusand, beygt mig niður og lagt hana við hjarta mitt, fundið hana heita á húðinni og ég hafði glaðst. Ég horfði á hendur mínar og hugsaði um þennan draum og vonbrigði mín hurfu og óróleikinn. Draumurinn fullvissaði mig um að hér yrði gaman. Hér yrði ævintýri.

(s. 8-9)