Stúlka með fingur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 


Úr Stúlka með fingur:

Ég er eina stúlkan í skólanum sem er ekki með fléttur og í íslenskum búningi. Dökka hárið mitt er uppsett. Þær segja að ég sé í dönskum kjól, en hann er enskur.
Fram hjá mér er ekki lengur rigsað, það eru ekki bara skólastrákar sem taka ofan, hörðu hattar æðri herranna lyftast sem af sjálfu sér þegar þeir mæta mér á götunni. Sama hvað þeim finnst, skólasystum mínum, þótt þær hugsi að ég sé óþjóðleg, í íslenskan búning fer ég ekki, ó-ekkí, o-nei. Nóg eru um vanþróunarbraginn á öllu hér þótt við íklæðumst honum ekki. Ég er alveg föst í þessari afstöðu minni, eins og Alexía, eins og Berta var. Ég vil vera eins klædd og nútímalegar konur nágrannalandanna.
Það er hofmóður í mér, já, en líka þessi ríka þörf fyrir að tilheyra heimi en ekki bara horni í horni í hjálandi Danmerkur. Ég viðurkenni framagirni mína fúslega. Ríkmannlegri búningur kallar sjálfkrafa á betra ávarp, ég er ekki kölluð jómfrú lengur, heldur fröken. Hvað ég hlæ að þessu og systur mínar með! Það þykir alls ekki við hæfi að almúgafólk sé í dönskum fötum, en eftir að ég hóf nám í Kennaraskólanum er ég varla lengur almúgi, ég vinn það mikið fyrir Kaftein og Blaðstjóra að ég hef efni á að klæða mig vel, og hvaða lög banna það? Úrelt klásúla úr Jónsbók? Ég hef ekki mikið af sjálfri skólasetunni að segja, kennararnir eru flestir góðir menn, engin glampandi ljós en velviljaðir. Best af öllu er sú tilfinning að tilheyra vera meðtekin sem fyrsta flokks. Minningin um misfínu bekkina í barnaskólanum situr í mér eins og brennimark.

(s. 203-204)