Á ströndinni

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1961

On the Beach eftir Nevil Shute í þýðingu Njarðar.

Bók mánaðarins hjá Almenna bókafélaginu í febrúar 1961.

Úr bókinni:

Peter Holmes yfirforingi í ástralska sjóhernum vaknaði skömmu fyrir dögun. Hann lá letilega dálitla stund í notalegri hlýjunni frá Mary sem svaf við hlið hans og horfði á fyrstu geisla hinnar áströlsku sólar falla á gluggatjöldin á herbergi þeirra. Hann vissi af geislum sólarinnar að klukkan var um fimm. Brátt myndi ljósið vekja Jennifer, litlu dóttur þeirra, þar sem hún lá í vöggunni og þá myndu þau þurfa að fara á fætur og taka til höndunum. Það var engin ástæða til að byrja fyrr; hann gat legið örlítið lengur.

Hann vaknaði hamingjusamur og það leið nokkur stund áður en vakandi hugur hans hafði gert sér grein fyrir orsökum þessarar hamingju. Það voru ekki jólin því þau voru liðin. Hann hafði kveikt á litla grenitrénu í garðinum þeirra, marglit ljós með langri leiðslu að tenglinum við hlið arinsins í setustofunni; það var lítil eftirmynd hins stóra, uppljómaða trés sem var í mílu fjarlægð, utan við ráðhúsið í Falmouth. Þua höfðu borðað steik í garðinum á jólakvöld ásamt nokkrum vinum sínum. Jólin voru liðin og í dag - hugsun hans skýrðist hægt - í dag hlaut að vera fimmtudagur hins 27. Þar sem hann lá í rúminu fann hann enn til sólbrunans á bakinu frá deginum áður er þau höfðu verið á ströndinni og tekið þátt í kappsiglingu. Það mundi vera skynsamlegt fyrir hann að vera í skyrtunni í dag. Og þá, er hann vaknaði til fullrar meðvitundar, vissi hann að auðvitað mundi hann vera í skyrtunni í dag. Hann átti að mæta á skrifstofu næstráðanda flotans í flotadeildinni í Melbourne. Það þýddi nýtt starf, fyrstu vinnu hans í sjö mánuði. Það gæti jafnvel þýtt sjómennsku ef hann væri heppinn og hann þráði sjóinn aftur.

Það þýddi að minnsta kosti vinnu. Hugsunin um það hafði gert hann hamingjusaman þegar hann fór að sofa og hamingjan hafði haldizt alla nóttina. Hann hafði ekki haft niett starf síðan hann var gerður að yfirforingja í ágúst og eins og nú var ástatt hafði hann næstum misst alla von um að vinna nokurn tíma aftur. Samt hafði flotadeildin greitt honum full laun alla þessa mánuði og hann var þeim þakklátur.

Kornbarnið hreyfði sig, blablaði og gaf frá sér lág, kjökrandi hljóð. Sjóliðsforinginn teygði sig til að kveikja á rafmagnskatlinum sem var á bakka ásamt tei og barnamat við hliðina á rúminu og Mary rumskaði við hlið hans. Hún spurði hvað klukkan væri og hann sagði henni það. Svo kyssti hann hana og sagði:

- Það er dýrlegur morgunn.

(5-6)