Strandanornir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

1. og 2. pr. 2003. Kiljuútgáfa 2004.

Af bókarkápu:

Óboðinn gestur birtist óvænt í árlegri veislu Kolfríðar fyrir framliðna ættingja og vini - ófrýnileg skotta sem skelfir bæði hana og barnabörnin þrjú, Úrsúlu og Messíonu, tíu og tólf ára upprennandi nornir, og Valentínus stóra bróður þeirra. Til að kveða óværuna niður þarf fjölskyldan að fara alla leið norður á Galdrastrandir á vit fortíðarinnar og sú ferð verður ekki tíðindalaus.

Úr Strandanornum:

„Veislan ætlaði að takast með afbrigðum vel. Eftirrétturinn var ljúffengur þótt ósýnilegu veislugestirnir virtust ekki bragða á neinu. Kolfríður sagði að ekkert væri að marka það. Allir væru að fá sér af kræsingunum. Skítur á priki flutti þrjú frumsamin lög: Draugaskottís, Galdraþoku og Ástargaldur, og Kolfríður sagði viðstadda vera yfir sig hrifna af frammistöðu hljómsveitarinnar. Skömmu síðar opnaði Kolfríður alla glugga á íbúðinni, til að hleypa loftinu af stað, eins og hún kallaði það, og ósýnilegir gestir hurfu á braut hver á eftir öðrum. Jón Glói stökk á eftir þeim út um gluggann, nokkuð sem krakkarnir áttu ennþá erfitt með að venjast þar sem amma þeirra bjó á fimmtu hæð.
 Þegar krakkarnir voru að kveðja varð Messíönu sem snöggvast litið inn um stofudyrnar sem stóðu í hálfa gátt. Hún greip andann á lofti, fölnaði og fæturnir ætluðu að gefa sig undir henni.
 Við matarborðið sat kerling, skelfilega ófrýnileg með svarta skotthúfu á höfði, og skóflaði í sig perum með berum lúkunum. Hún leit upp og glotti, smjattaði og hélt áfram að moka eftirréttinum upp í sig. Hún var með volduga vínflösku sér við hlið, lyfti henni hátíðlega, blikkaði Messíönu og fékk sér gúlsopa. Messíana greip í systur sína.
 - Úrsúla, stamaði hún og benti inn í stofu. Amma! Hver er þetta?
 Kolfríður leit rannsakandi inn í stofuna og festi augun á kellu. Kerlingin stakk flöskunni í svuntustrenginn og stökk með látum og fyrirgangi upp á veisluborðið.“

(s. 23-24)