Stjörnustrákur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 


Byggð á samnefndum þáttum sem voru Jóladagatal Sjónvarpsins 1991. Ljósmyndir: Craig Stevens.

Úr Stjörnustrák:

16. desember

Ísafold og Blámi eru ekkert á því að gefast upp á fjársjóðsleitinni. Þau eru stödd í verksmiðju sem framleiðir kerti. Þau læðast inn í salinn þar sem kertin eru gerð. Þar fela þau sig og sjá hvað fram fer.
 „Heldurðu að fjársjóðurinn sé hérna?“ hvíslar Blámi.
 „Það stóð verksmiðja á miðanum frá í gær og svo var mynd af kerti í dagatalinu í morgun. Mér datt þess vegna í hug að við fyndum eitthvað hér í kertaverksmiðjunni.“
 „Til hvers eru þessi kerti eiginlega? Á að borða þau?“ Blámi bítur í eitt kertið! Það er ekki sérlega gott á bragðið.
 „Nei, kjánaprik, maður kveikir á þeim og lætur loga. Þá kemur ljós.“
 „Já, en þið hafið rafmagn og þið fáið miklu meira ljós af því.“
 „Já, það er alveg satt, en kertaljós er miklu hátíðlegra. Það er til dæmis alltaf kveikt á kertum á jólunum. Jólakertum. Það er eitthvað svo sparilegt. Jólin eru líka kölluð hátíð ljóssins,“ segir Ísafold spekingslega.
 Blámi er steinhissa.
 „Skrítið! Þegar við á stjörnunni minni ætlum að hafa hátíðlegt, þá slökkvum við ljósin og stöndum á haus.“
 Ísafold tístir af hlátri.
 „Erðanú! Ó, passaðu þig, þarna kemur einhver!“
 Það kemur maður inn í salinn og fer að vinna við kertagerðina. Ísafoldu finnst skemmtilegt að sjá hvernig kerti eru gerð.
 Hún hafði ekki hugmynd um að það væri svona.
 Allt í einu sjá þau að kerlingin birtist í dyrunum. Það er alveg greinilegt að þetta er kerlingin þótt hún hafi dulbúið sig. Hún er með eldrauðan varalit og uppsett ljóst hár. Svo er hún í níðþröngu, stuttu pilsi og rauðum lakkskóm með himinháum hælum. Hún lítur út eins og algjör pæja. Kerlingin gengur til kertamannsins.
 „Afsakið herra, er hægt að fá vinnu hérna?“
 Hann horfir rannsakandi á hana:
 „Hmm, ég veit nú ekki. Það er að vísu mjög mikið að gera hér á þessum árstíma, jólakertin, þú skilur. Ég tek þig til reynslu. Við skulum sjá hvernig þér ferst þetta úr hendi.“
 Svo sýnir hann kerlingunni hvernig á að gera. Hún reynir að gera eins, en allt mistekst hjá henni! Útkoman verður mjög svo undarleg kerti.
 Krakkarnir liggja í leyni, skríða um og fylgjast með. Þau eiga bágt með að halda niðri í sér hlátrinum, þegar þau sjá kertin sem kerlingin gerði.
 Kertamaðurinn skoðar kertin.
 „Nei, ég held að þetta sé ekki rétta starfið fyrir þig, væna mín.“
 „Ansans vandræði.“ Kerlingin virðir kertin fyrir sér.

(s. 60)