Stjörnur og strákapör

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Stjörnur og strákapör:

Skip að austan

 Lilla tvísté óþolinmóð á bryggjunni. Hún rýndi út á höfnina milli þess sem hún leit á klukkuna. Af hverju kom dallurinn ekki? Hún hafði farið langt á undan pabba og mömmu niður á höfn. Það gat alltaf verið að skipið væri á undan áætlun og hún ætlaði ekki að láta vini sína standa eins og álfa út úr hól á bryggjunni.
 Síðustu vikur hafði hver stórfréttin rekið aðra. Fyrst ákváðu afi og amma að koma til Reykjavíkur í heimsókn næst þegar Esjan kæmi að austan. Afa vantaði gleraugu og amma ætlaði að fá sér nýjar gervitennur. Síðan höfðu Kata og Aðalheiður slegist í förina.

(s. 7)

Grænar ýsur

 Afi var svo einkennilega órólegur. Það var eins og hann væri ósáttur við allt og alla. Honum leiddist umferðin, fannst allt of margt fólk í kringum sig, landslagið ljótt og ýsan gömul. Svo var hann alltaf með magaverk. Og þegar hann hafði fengið óætan fisk á hverjum degi í langan tíma ákvað hann að fara sjálfur með Lillu út í fiskbúð.
 Í glugganum á fiskbúðinni hékk miði sem á stóð NÝ ÝSA. Miðinn hafði einu sinni verið hvítur en var nú farinn að gulna töluvert því hann hafði hangið þarna svo lengi.
 „Fari það nú í grængolað! Þetta kallið þið nýtt!“ sagði afi þungbrýnn og horfði niður í fiskbakkana. Þar lágu heimskulegir þorskar og sakleysislegar ýsur innan um saltfisk, gellur og kinnar.
 „Þetta kom allt í morgun,“ sagði afgreiðslustúlkan. Hún var með stóra gúmmísvuntu framan á sér og hendurnar voru rauðar af langvarandi kulda.
 „Þú þarft ekkert að segja mér um það, góða mín. Þetta er ekki nýr fiskur frekar en ég.“
 „Við seljum ekki annað en nýtt,“ sagði stúlkan þrjósk.
 „Þú getur kannski talið Reykvíkingum trú um að þetta sé nýr fiskur, fólki sem situr allan daginn í strætó og lifir á ristuðu brauði. En reyndu ekki að segja heiðvirðum sjómanni austan af landi að þessar grænu ýsur þínar séu nýjar!“
 „Þær eru ekkert grænar!“ stúlkan var orðin rjóð í vöngum:
 „Víst eru þær hvanngrænar og ef þú værir ekki svona græn sjálf gætirðu viðurkennt það,“ sagði afi þungbúinn. Hann tók upp vasaklútinn og snýtti sér svo undir tók í litlu fiskbúðinni. Stúlkan horfði með hryllingi á afa sveifla vasaklútnum. Nokkrar konur höfðu komið inn, biðu átekta og fylgdust með afa.
 „Afi minn,“ hvíslaði Lilla, „ég átti að kaupa ýsu. Er ekki allt í lagi með hana?“

(s. 23-24)