Sterkasta kona í heimi

sterkasta kona í heimi
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Um bókina

Systkinin Gunnhildur og Eiður eru valdalausir samherjar í fjölskyldu þar sem foreldrarnir eru aldrei glaðir samtímis. Þegar fjölskyldan sundrast eru systkinin skilin að sem litar allt þeirra líf – Eiður verður friðsamur hugsjónamaður sem þráir að láta gott af sér leiða en Gunnhildur, sem býr yfir ofurkröftum þótt hún flíki þeim ekki, menntar sig í förðun og verður eftirsóttur líksnyrtir.

Sterkasta kona í heimi er fjölskyldusaga um leitina að hamingjunni, breyskleika og óvænta krafta.

Úr bókinni

Dagarnir voru líka appelsínugulir þegar við gáfum fuglunum á veturna og hentum til þeirra korni út um kvistgluggann. Stundum fórum við saman út í garðinn og gerðum engla í snjóinn, einn stóran í miðjunni og tvo minni við hliðina og mamma stráði korninu í englamótin. Á eftir hlupum við upp, settumst við gluggann og biðum. Fljótlega komu starrar, þrestir og einstaka snjótittlingur og englarnir iðuðu af lífi, lyftust frá jörðu og flugu burt.
  Eitt sumarið bárum við út dýnuna úr hjónarúminu til að viðra hana. Þetta var mikið tilstand. Ég fór fyrst niður mjóan stigann, bar mestu þyngslin og eins og alltaf þegar ég fann hvað ég gat, varð ég ör af stolti, elskaði líkamann sem bjó yfir þessum dularfullu kröftum. Mamma og Eiður komu á eftir, full aðdáunar þar sem þau bisuðu hvort með sitt hornið og mamma blikkaði mig kankvíslega.
  Þegar dýnan var komin út fannst okkur óþarfi að taka hana strax inn aftur og við lögðumst út í þrjár nætur. Fólkið á neðri hæðunum gægðist forvitið niður til okkar þar sem við lágum þétt saman öll þrjú undir stóru sænginni og horfðum upp í himin sem var þarna ennþá, hinum megin við augnlokin þegar þau opnuðust óvart um miðja nótt og þegar þau lokuðust aftur sofnuðum við með þyt asparlaufsins í eyrunum. Nóttin varð aldrei alveg myrk og laufin teiknuðu mynstur á dimmbláan himininn, dularfull og fínleg eins og á japönsku plagötunum á súðinni fyrir ofan rúmin okkar, en þessi voru alvöru.
  Nýslegið grasið í garði nágrannans kitlaði nasirnar og stóru birkitrén hans teygðu greinarnar yfir girðinguna til okkar, snertu næstum öspina sem nágranninn vildi láta höggva.
  Rætur asparinnar ná örugglega inn í garðinn hans, sagði mamma og flissaði. Þarna skríða þær óséðar niðri í myrkrinu undir girðinguna og sjúga í sig áburðinn sem karlófétið er alltaf að bera á grasið.
  Mér finnst girðingar asnalegar, sagði Eiður. Annaðhvort loka þér fólk úti eða loka fólk inni. Þannig gera þær ekkert gagn.
  Maður getur bara klifrað yfir þær, sagði ég og þau litu bæði hugsandi á mig.

(30-31)