Steinunn Sigurðardóttir: ritþing 10. nóvember 2001

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Umsjón og samantekt: Sigvaldi Júlíusson.

Úr bókinni:

Kristján: Ég man fyrst eftir þér sem fréttamanni, sem rödd í útvarpinu. maður verður að gera sér grein fyrir því að það var bara ein útvarpsrás á Íslandi þá og því síuðust þessar raddir sem mauðr heyrði inn í vitundina og höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mann. Þeir sem voru fréttamenn voru meginraddir og maður þekkti þær allar með nafni. Öðruvísi en nú.

Útvarpið, og ekki síst fréttastofan, er einhver mesta menningarstofnun sem hefur verið við lýði. Þessir snillingar sem voru að vinna þarna. Íslenska útvarpið hefur meira að segja orðið einum erlendum rithöfundi að yrkisefni. Alla vega vinnur ein söguhetjan á Útvarpinu, í Skimmer, Ljóma eftir Göran Tunström. Mér finnst skrýtið að enginn íslenskur höfundur hafi notfært sér þetta (en það hefur kannski farið fram hjá mér) vegna þess að þetta er ótæmandi brunnur af skemmtilegheitum og menningu. Þetta var hreint og beint ótrúlegt fólk. Ég rétt náði í skottið á þessu; reyndar var Jón Magnússon fallinn frá og Thorolf Smith, Hendrik Ottósson. Stefán Jónsson var þarna ennþá, ekki reyndar á fréttastofunni, en algjör snillingur. Það hittist þannig á að einn af essum þsnillingum er verið að kveðja í dag, Margréti Jónsdóttur, sem hefur unnið á fréttastofunni í öll þessi ár því hún er að hætta, en það fór minna fyrir henni en öðrum af því að hún er kona.

Sjón: Það líða þarna sjö eða átta ár á milli bóka; hafði Sigfús [Daðason, sem Steinunn vann hjá í Máli og menningu] svona mikil áhrif á þig?

Nei, ekki Sigfús. Ástæðan er í salnum, það er Tinna dóttir mín, en hana átti ég 1974. Ég var svo upptekin af henni að ég skrifaði ekki mikið í kringum það. Ég hafði náttúrulega ekki hugmynd um að maður gæti orðið svona upptekin af barnkríli, en það fór þannig. það er líka önnur ástæða, en hún er sú að ég var að skrifa leikrit á þessum tíma. Ég skrifaði stíft fyrir svið. Þetta kemur ykkur á óvart og það er ekki nema von því þetta hefur ekki komið fyrir annarra augu en mín eigin. Og eins gott því þetta er sú mesta steypa sem nokkur höfundur hefur sett saman. Ég hélt sem sat að ég væri leikskáld. En það var byggt á mjög alvarlegum misskilningi sem ég leiðrétti sjálf. En það tók bara dálítinn tíma. Fleiri ástæður eru fyrir þessu. Verksummerki kom út 1979 en hefði getað komið út 1976 eða `77, en ég var aldrei ánægð með hana. Var alltaf að safna í sarpinn og gera þetta skárra. Þarna er hlaupið kapp í kvenmanninn; smá metnaður á bak við. Ég segi ekki að fyrstu tvær bækurnar hafi verið metnaðarlausar, en þarna er alvaran komin í spilið og ég um það bil farin að gera mér grein fyrir að ég ætla að halda áfram að skrifa eða að ég get ekki hætt.

(11-2)