Stefnumót í Dublin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1971
Flokkur: 

Úr Stefnumót í Dublin:

Það er ekki fyrr en á unglingsárunum, sem það rennur upp fyrir manni að dauðinn er bláköld staðreynd, fjarlæg en óumflýjanleg, og það tekur mislangan tíma að átta sig á því hvernig á að bregðast við þessari nýfengnu vitneskju.
Hann hafði verið lengi að átta sig.
En smám saman hvarf fánýtistilfinningin og honum fannst hann loks vera eins og annað fólk en ekki einn í heiminum innan um óljósa svipi eða skugga.
Og það var komið fram í maí áður en hann vissi af og hundarnir hnerruðu í göturykinu og honum fannst eins og hann væri að byrja að sættast við lífið og dauðann án þess að nokkuð sérstakt hefði gerzt.
Það er stórkostlegt að sættast við sína eigin tilveru. Að finna öryggi í stað þess að kvíða stöðugt aðgerðaleysi og fánýti næsta dags og óljósum nagandi spurningum.
Hvað er verra en lifa eins og milli svefns og vöku, höfuðsetinn gátum, sem maður greinir ekki en aðeins órar fyrir, sem eru eins og spurning, sem aldrei fæst svar við, vegna þess að hún er skráð í svo gamla bók að af máðu letrinu er ekkert skiljanlegt annað en spurningarmerkið, sem er eina ábendingin um að einhvern tímann hafi verið um spurningu að ræða?

(s. 30-31)