Spor í rétta átt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Spor í rétta átt:

Marí var óviðbúin og kastaðist fram á við þegar bílstjórinn steig á hemlana. Hún greip fast um stöngina á sætinu fyrir framan og klemmdi aftur augun. Var vagninn að lenda í árekstri eða hvað? Hún kreppti hnefana fast og beið stíf eftir högginu sem óhjákvæmilega hlaut að fylgja en það kom ekki. Strætisvagninn jók ferðina aftur og hún hætti á að opna augun. Hún hét fullu nafni Maríanna en var af öllum öðrum en foreldrum sínum kölluð Marí. Hún var 16 ára og á fyrstu önn í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Hún skammaðist sín fyrir hræðsluna en gat ekki að þessu gert. Fyrst eftir slysið var hún ofsa hrædd í bíl. Það hafði sem betur fer lagast smám saman er frá leið. Hún leit laumulega í kringum sig eins og til að rannsaka hvort nokkur hefði veitt óeðlilegri hræðslu hennar athygli en það var ekki að sjá. Fáir voru í vagninum og hver virtist hafa nóg með sig.
Hún hallaði sér aftur á bak í sætinu og fór að hugsa um slysið. Pabbi hennar var að norðan og þar höfðu þau verið á ættarmóti. Marí hafði undrast allan þennan ættingjafjölda og ekki haft hugmynd um allar þær frænkur og frændur sem hún átti og voru þarna saman komin. Það var talað og sungið, borðað og drukkið fram undir morgun. Jóhanna, mamma hennar vildi vera um kyrrt einn dag til þess að sofa og hvíla sig. Hjörtur, pabbi hennar tók það ekki í mál og vildi ólmur leggja af stað strax morguninn eftir. Talaði um að þau væru búin að vera lengur en til hefði staðið. Hann ætti ýmislegt ógert sem ekki þyldi bið. Hann þreyttist fljótlega við aksturinn og bað mömmu að taka við. Hún færðist undan enda ekki góður ökumaður. Hann sagði að hún skyldi bara fara hægt. Mamma lét til leiðast. Ekki tókst þó betur til en svo að hún missti stjórn á bílnum í lausamöl og hann fór út af veginum, valt og þau slösuðust öll.
Frá þeim degi var Marí hrædd í bíl. Það hafði að vísu lagast. Hún var þó alltaf fegin þegar hún var komin á áfangastað, sérstaklega ef farið var um malarvegi.

(s. 5-6)