Spor í myrkri

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Spori í myrkri:

Þótt Sóla hefði verið heimt úr helju með ævintýralegum hætti var hún jafn kvíðafull og áður. Það stafaði af óskum, eða öllu heldur hótunum, unga mannsins sem Sóla gat ekki hætt að hugsa um. Hún þorði ekki að taka þá áhættu að þau yrðu látin í friði það sem eftir var ferðarinnar tækist henni ekki að komast yfir beinin. Þótt búið væri að leggja meira á herðar krakkanna en góðu hófu gegndi gat jafnvel verið um líf og dauða að tefla ef ekki yrði farið að fyrirmælum mannsins. Það nagaði samvisku Sólu að vissu leyti að hafa ekki treyst krökkunum fyrir því sem hvíldi á henni í ljósi þess sem á undan var gengið. Hún velti því fyrir sér hvort atburðir næturinnar hefðu nokkuð átt sér stað hefði henni tekist að ná beinunum. Voru sjómennirnir virkilega svo fullir af illsku og lausir við mannkærleik að þeir ætluðu sér að fórna saklausum unglingum þegar klikkaður bóndi átti sök að máli? Sóla hræddist það að segði hún sannleikann myndu krakkarnir ásaka hana fyrir að tefla lífi þeirra í hættu að ástæðulausu. Hún var brúnaþung í morgunsárið eftir að hafa jafnað sig, ef hægt var að tala um slíkt, eftir raunirnar. Hvað átti hún að gera? Ekki gat hún freistað þess að fara aftur ein til karlsins þótt henni virtist hann vera frekar vingjarnlegur. Vissulega gat hann líka verið duttlungafullur og það þótti henni líklegast. Sóla ákvað að segja krökkunum sannleikann en hún gerði það ekki með sælusvip. Krakkarnir skynjuðu alvöruna og þeim féllust næstum hendur. Gat það hugsast að fjörgömul mannabein væru ástæða alls þess sem þau voru búin að ganga í gegnum? Kría kjökraði yfir því að pabbi hennar skyldi ekki koma fyrr en á morgun og þau sátu drykklanga stund og réðu ráðum sínum. „Ef þið reynið að komast burtu skal ég klára þetta ein,“ sagði Sóla og leit ákveðin á hópinn. „Trausti ætti að geta synt yfir ána á háfjöru. Við bindum bara spotta í hann til vonar og vara.“

(s. 123-124)