Sólskinsfólkið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Um bókina:

Sérkennilegur háskólakennari leigir sér íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjavík eftir áralanga dvöl erlendis. Svo virðist sem forveri hans í íbúðinni hafi komist up á kant við aðra íbúa hússins og smám saman fær háskólakennarinn á tílfiinninguna að þeir séu að gera samsæri gegn honum. Eftir því sem dagarnir líða tengist líf hans örlögum ungrar listakonu sem starfar á búningaleigu í miðbænum og er að festast í svikvef samtímans rétt eins og hann.

Úr Sólskinsfólkinu:

Óvænt stefnumót í líkkistuherberginu

Ari sat inni á bar í miðbæ Reykjavíkur, við glugga. Fyrir utan gluggann var lítið af gangandi vegfarendum - bílarnir voru fleiri, þó ekki beinlínis margir, og fólkið í bílunum virtist, af einhverjum ástæðum, hafa áhuga á honum, Ara, og starði á hann eins og hann væri fyrirbrigði sem ekki hefði sést áður í borginni.

Göturnar í miðbænum staðfestu það sem hann hafði tekið eftir á labbi sínu um Vesturbæinn - um Ægisíðuna, Melana og nágrenni Þjóðarbókhlöðunnar og Suðurgötukirkjugarðsins - að áherslur í skipulagningu borgarinnar væru rangar. Göturnar voru mun breiðari en þær þurtu að vera til að anna umferðinni og sama átti við um gangstéttirnar sem líktust akbrautum sjálfar. Að sama skapi, eða í beinu framhaldi af stærð gatnanna, var of langt á milli húsanna og húsin voru of lág og raunar of lítil á alla kanta - sem teygði enn frekar á byggðinni, og garðarnir við húsin voru of stórir og of lítilfjörlegir, eyðilegir og tómir af gróðri, og að auki voru bílastæðin sem tilheyrðu þessum húsum of mörg, of breið, náðu of langt út á götu - og þannig aftur að götunum og bílunum í vítahring. Að öllu samanlögðu fannst honum eins og skipulag Reykjavíkur sem bílaborgar æli óþarflega mikið á fjarlægðum milli fólksins og á göngu sinni í miðbæinn mætti hann ekki nema tveimur gangandi vegfarendum, fjarlægum á breiðri gangstéttinni.

Á borðinu fyrir framan Ara var bjór í hálfs lítra glasi. Efst í glasinu var þykk, hvít froða. Hann hafði aldrei komið inn á þennan stað áður. Sumir af gestum staðarins, sem líktust ekki Íslendingum, höfðu tekið sér stöðu við barborðið og spjölluðu. Andrúmsloftið þarna inni var vinalegt. Þrátt fyrir að fáir væru, enn sem komið var, inni á staðnum var skvaldur í loftinu sem niðaði þægilega í eyrunum og fór vel með áhrifunum af bjórnum. Ari mundi ekki til þess að hafa drukkið áfengi í langan tíma og var farin að finna á sér.

Þetta var líklega skoskur bar. Ara hafði stundum langað til Edinborgar, eða að ganga um skosku hálöndin þar til hann ryrði rjóður í kinnunum og dasaður í líkamanum, setjast þá inn á næsta ,,pub og fá sér heitt toddí eða Guinness. Það var Guðni Magnús sem stakk upp á að þeir hittust þarna. hann hafði talað um að í bakherbergi á staðnum væri líkkista - maður sæti á stól við kistuna og glasið manns, með bjórnum, væri ofan á kistunni. Ari vissi ekki hvar þetta bakherbergi með kistunni var og hálftími var liðinn fram yfir tímann sem þeir ætluðu að hittast á.

(48-9)