Sólmundur

sólmundur
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Um bókina

 

Sólmundur er frásögn af innra endurmótunarferli manns um fertugt sem dvelur einsamall í sumarbústað.

Hann íhugar eigin nálgun á lífið og lætur sig dreyma um frama sem rithöfundur og ástarsamband með Helenu vinkonu sinni.

Hann horfir til fortíðarinnar með angurværð gagnvart hinu hverfula og fagra og ásetur sér að uppljómast með aðstoð Guðs og gæfunnar.

Úr Sólmundi

Núna heiti ég Sólmundur! Ég breytti nafninu mínu sama daginn og ég flutti hingað í sveitina og hóf nýtt líf. Áður hét ég Hermundur.
  Ég er tvímælalaust miklu meiri Sólmundur, nú sem aldrei fyrr, og ég er mjög stoltur af því að hafa tekið þetta skref. Mér finnst ég hafa sýnt mikið hugrekki með því að losa mig undan nafni sem ég hef aldrei tengt við og umborið líkt og óklæðilega klippingu eða trúðsfötin sem ég var fenginn til að klæðast meðan ég vann í móttökunni hjá jógastúdíói í bænum. Þetta breytir reyndar litlu fyrir mína nánustu sem kalla mig hvort eð er allir Munda, en þetta skiptir sjálfan mig miklu máli.

Ég sá móttökustarfið auglýst í dagblaði, leist vel á lýsinguna og ákvað að sækja um þótt ég hefði svo sem takmarkaðan áhuga á jóga. Þetta var hlutastarf þar sem stúdíóið var einungis starfrækt tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum, nokkuð sem hentaði fullkomlega samhliða öðrum verkefnum. Ég var fljótlega boðaður í viðtal sem gekk einkar vel, var ráðinn samdægurs og hóf störf á næsta mánudegi.
  Á miðvikudagsvaktinni rétti yfirmanneskjan mér skræpótta mussu og pokabuxur, baðst afsökunar á því að vera svona sein með þetta og bætti flaumósa við að ég skyldi láta sig vita ef ég vildi annað sett til skiptanna, fötin væru samt mjög fljót að þorna eftir þvott.
  Þegar hún sá undrunarsvipinn á mér varð hún fremur vandræðaleg og sagðist hafa útskýrt fyrir mér í viðtalinu að það væri voða fínt ef ég væri í þessu, nema ég ætti sjálfur eitthvað sambærilegt - ég væri auðvitað í mjög fallegum fötum en þetta snerist um samræmi. Mig rámaði ekkert í slík orð og hryllti við hugmyndinni en ég var farinn að kunna svo afskaplega vel við mig í starfinu að ég tók kurteislega við fötunum og ákveð með sjálfum mér að hugsa málið fram yfir helgi.

(11-12)