Sólin hjarta mitt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001

The Sun My Heart eftir Thich Nhat Hanh.

Af bókarkápu:

Thich Nhat Hanh, víetnamskur Zen-meistari, ljóðskáld og friðarfrömuður, hefur verið munkur í rúma hálfa öld. Í Víetnam stofnaði hann Æskulýðsskólann fyrir félagslega þjónustu (,,litlu friðarsveitina), sem hafði það verkefni að endurreisa þorp, sem rústuð höfðu verið í loftárásum, og finna ný heimkynni handa tugþúsundum flóttamanna sem flosnað höfðu upp á styrjaldarsvæðunum. Hann stofnaði líka Búddaháskólann Van Hanh, prentverkið La Boi, og samverundarregluna Tiep Hien. Árið 1966 ferðaðist hann til Bandaríkjanna og Evrópu í boði Sáttarsamtakanna ,,til að bera fram óskir allra trúarsamfélaga víetnömsku þjóðarinnar, sem ekki áttu þess kost að tala máli sínu (New Yorker, 25ta júní 1966). Hann hefur verið hylltur af heimskunnum kristnum guðfræðingum á borð við Thomas Merton, John Shelby Spong og Elaine Pagels, og var tilnefndur af Martin Luther King yngri til friðarverðlauna Nóbels 1967. Eftir utanförina fékk hann ekki að snúa aftur til heimalandsins, en þáði boð um hæli í Frakklandi og tókst á hendur formennsku í Búddísku friðarnefndinni á vopnahlésráðstefnunni í París 1974. Hann býr nú í Plómuþorpinu, litlu samfélagi í Frakklandi, þar sem hann heldur áfram að kenna, skrifa fást við garðyrkju og hjálpa flóttamönnum um víða veröld. Hann hefur samið á annan tug bóka, sem flestar hafa verið þýddar á ensku og margar á ýmsar aðrar tungur.

Úr Sólin harta mitt:

Farðu ekki í kalda sturtu þegar þú ert með flensu

Sá sem er gagnrýnandi að atvinnu les bók eða horfir á kvikmynd athugulum augum. Meðan þú ert að lesa eða horfa, ertu meðvitaður um ábyrgð þína sem gagnrýnandi og gerist ekki fórnarlamb bókarinnar eða kvikmyndarinnar. Þú hefur stjórn á sjálfum þér. Þegar þú lifir í gaumgætni hefurðu líka stjórn á sjálfum þér. Þó gluggar þínir séu opnir til umheimsins, ertu ekki þvingaður af honum. Ef við þurfum að vernda skynfæri okkar, stafar það af því að við erum ekki nægilega sterk til að horfast í augu við veröldina, alveg á sama hátt og sá sem er með flensu er kannski ekki nógu sterkur til að fara í kalda sturtu.

Mér er minnisstæður dagur nokkur í La-Bio-prentverkinu, litlu útgáfufyrirtæki sem allmargir okkar settu á laggirnar í Víetnam. Þann dag var ég beðinn að segja eitthvað um listir og bókmenntir. Ég sagði að þær ættu bæði að opinbera og græða. Opinbera aðferðir til að sýna raunverulegar aðstæður fólks og samfélags. Græða aðferðir til að sýna leiðir til að ráða bót á þeim. Búdda er oft nefndur Lyfjakóngurinn afþví kenning hans er löguð að sérhverjum einstaklingi og sérhverju ástandi. Siddharta prins dró sig í hlé útí skóg til að sitja hjá læk í mörg ár áður en hann sneri aftur til byggða. Nú á tímum búum við í hávaðasömum og menguðum samfélögum, sem eru barmafull af ranglæti, en við getum um stundarsakir leitað athvafs í almenningsgarði eða á  árbakka. Tónlist, bókmenntir og skemmtanir samtímans gera lítið til að aðstoða við græðsluna, þvertámóti auka þær flestar á beiskjuna, úrræðaleysið og þreytuna sem við finnum öll fyrir. Við þurfum að finna leiðir til að verjast, læra hvenær beri að opna og hvenær loka skyngluggum okkar. Þeta er fyrsta skrefið fyrir þann sem er að hefja innsæja íhugun.

Mér finnst ég þarfnast umhvefis og hluta sem eiga vel við mig, sem stuðla að hamingju minni, sálarfriði og heilbrigði. Hvar er slíkt að finna? Allt er það tiltækt við nefið á okkur, í ,,ytra heiminum. Lækur í skógi, barnsaugu, kær vinur, frábær bók, tónleikar, gómsæt og heilnæm máltíð - ég veit að allt er þetta við höndina. En án gaumgætni get ég ekki til fulls notið þess eða metið það.
(48-49)