Sól dauðans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1964

Pandelis Prevelakis: O ílíos tou thanatou. Sigurður A. Magnússon þýddi og ritaði formála. 
Úr Sól dauðans:

Börnin skildu að skrúðgangan var um garð gengin. Þau mundu alltíeinu hvert fyrir sig, hvað þau áttu að gera, og hurfu einsog reykur. Aðeins drenghnokki, sem virtist vera gulusjúkur, varð eftir. Hann var háfættur, grindhoraður, kögglastór. Hann yrti á mig:
 - Viltu ganga í herinn okkar?
 - Hvaða her?
 - Við höfum líka her. Ég er foringi riddaraliðsins.
 - Áttu við hundana?
 - Hundana, já. En þeir eru þjálfaðir.
 - Ég ætla að spyrja hana frænku mína fyrst.
 - Er Rúsakí frænka þín? Veit hún að sonur hennar drap Ílías, son hennar Spíþúrenu?
 Ég fann að hnén létu undan.
 - Á vígstöðvunum?
 - Já, svo sagði liðþjálfinn. Þeir lentu í slagsmálum.
 Garmurinn sneri við mér baki. Hann hafði líka víst vanrækt eitthvað og þurfti að flýta sér.

Margt fólk hafði safnazt saman fyrir framan húsið okkar. Ég nam staðar bakvið hliðstólpann, svo ég sæist ekki, og lagði við hlustirnar.
 - Betra er að vera móðir morðingjans en fórnarlambsins, mælti ellihrum rödd.
 - Þögn! Þögn! hrópaði frænka. Ég kæri mig ekki um að heyra þessháttar huggunarorð... Það var þá satt þegar ég sá blóðið í draumnum! Það blandaðist vatninu í ræsinu og rann um allt þorpið.
 - En góða mín, það er blóðið úr kálfinum, sem Kanakis slátraði.
 - Nei! Nei! Blóðið á eftir að drekkja okkur, sagði frænka.
 Þar sem ég heyrði til hennar ánþess að sjá hana, fannst mér rödd hennar koma úr öðrum heimi, okkur ókunnugum. Röddin, sem í hvert skipti svaraði frænku, var af þessum heimi. Hún kvaddi frænku snöggvast til okkar, en jafnharðan gleymdi hún okkur og beindi augum sínum annað. Eitthvert óþekkt afl bærðist með henni og opinberaði henni sýnir, sem ekkert okkar hinna fékk hlutdeild í.
 - Heldurðu að hann Míkalis hennar Spíþúrenu muni hefna bróður síns? spurði gamall maður.
 - Æææ! stundi frænka. Hvenær hefur nokkur verið drepinn hér um slóðir ánþess honum fylgdu í dauðann fleiri en einn og fleiri en tveir?

(s. 58-59)