Sögur úr sarpinum

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Sögum úr sarpinum: 

TVÍBURARNIR

Magi mömmu rósarknappurinn opnaðist og tvíburafræflarnir hrukku út. Mamma setti þá á lófa sér og sagði: - Pabbi, eru þeir ekki fallegir.
 - Það eru þeir, sagði pabbi.
 - Þetta eru strákur og stelpa, sagði mamma.
 - Það er indælt, sagði pabbi.
 Svo lokaði hann augunum tilað ná kríu áðuren hann héldi aftur tilstarfa í loðnubræðslunni.
 Mamma þvoði krílin og snurfusaði, lagði þau svo endilöng þótt varla væru þau nokkuð endilöng heldur ósköp hnöttótt. Og mamma sönglaði yfir þeim allar vísurnar sem hún kunni og svæfði krílin og sjálfa sig og svaf einsog steinn blessunin því hún var afar þreytt.
 Þau sváfu öll í rúmunum sínum í hvítu íbúðinni í hvítu stóru blokkinni, en himinninn var rauður á litinn einsog purpuri með fáeinum gulum skýjum á siglíngu og stökum máfum sem skáru sundur silfurgeisla mánans með vængjunum. Þau voru hamíngjusöm í svefninum því pabbi fór aldrei á fyllerí með strákunum í vinnunni heldur kom alltaf skilvíslega heim með umslagið brúna sem í voru sléttir peníngaseðlar, og pabbi var vanur að benda mömmu á nafnið sitt sem stóð vélritað á umslaginu. Mamma fékk hinsvegar ekkert kaup fyrir heimilisstörfin, þannig að kaupið hans pabba kom sér vel.
 - Sjáum nú til, sagði pabbi jafnan þegar hann settist niður með umslagið sitt, - við þurfum að borga af íbúðinni, ísskápnum, eldavélinni, sófasettinu, sjónvarpinu, gólfteppinu og gluggatjöldunum.
 - Þá er nú ekki neinn obbi eftir í umslaginu, sagði mamma.

(s. 55)