Sögur frá Þýskalandi : Frásögur og stuttir textar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994

Wolfgang Schiffer og Franz Gíslason önnuðust útgáfuna. Sigurður A. Magnússon meðal þýðenda. Þýddi sögur eftir Marie Louise Kaschnitz, Stefan Heym og Jochen Schimmang.

Úr Sögum frá þýskalandi:

Feita barnið [brot]

Það var í endaðan janúar, skömmu eftir jólaleyfið, að feita barnið kom til mín. Þennan vetur hafði ég byrjað að lána börnunum úr nágrenninu bækur, sem þau áttu að sækja og skila á tilteknum vikudegi. Auðvitað þekkti ég flest þessara barna, en annað veifið komu líka ókunnug börn, sem ekki bjuggu í götunni okkar. Og endaþótt flest þeirra stæðu ekki lengur við en nam stundinni sem til þurfti að skipta bókunum, þá voru samt nokkur börn sem tóku sér sæti og byrjuðu strax að lesa. Þá sat ég við skrifborðið og hélt áfram að vinna, og börnin sátu við borðið hjá bókaveggnum, og návist þeirra var mér geðfelld og truflaði mig ekki.

Feita barnið kom á föstudegi eða laugardegi, allavega ekki á tilteknum útlánadegi. Ég var í þann veginn að fara út og var að bera inní herbergið skyndibita sem ég hafði útbúið. Skömmu áður hafði ég fengið heimsókn, og gesturinn hlaut að hafa gleymt að loka útidyrunum. Þannig vildi það til að feita barnið stóð óvænt fyrir framan mig, einmitt þegar ég hafði lagt bakkann á borðið og sneri mér við til að sækja eitthvað fleira frammí eldhúsið. Þetta var stelpa á að giska tólf ára gömul, klædd gamaldags vaðmálskápu og svörtum prjónalegghlífum og hélt á skautum í bandi, og hún kom mér kunnuglega fyrir sjónir, en þó eiginlega ekki kunnuglega, og meðþví hún hafði komið inn svo hljóðlega, hafði hún gert mér bilt við.

Þekki ég þig? spurði ég undrandi.

Feita barnið sagði ekkert. Það stóð þarna og spennti greipar um kúlulaga kviðinn og horfði á mig vatnsbjörtum augum.

Langar þig í bók? spurði ég.

Enn varð feita barninu svarafátt. En það olli mér engum sérstökum heilabrotum. Ég var því vön að börnin væru feimin og maður þyrfti að koma þeim til hjálpar. Þessvegna dró ég fram nokkrar bækur og lagði þær fyrir framan ókunnuga barnið. Þvínæst gerði ég mig líklega til að fylla út einn seðlanna sem bækur í útláni voru skráðar á.

Hvað heitirðu annars? spurði ég.

Þau kalla mig Feitabollu, sagði barnið.

Á ég líka að kalla þig það? spurði ég.

Mér er alveg sama, sagði barnið. Það endurgalt ekki bros mitt, og ég þykist núna muna, að í þeirri andrá hafi andlit þess afmyndast af sársaukagrettu. En ég veitti því ekki eftirtekt.