Sögur af himnaföður

Höfundur: 
Þýðandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1959

Um þýðinguna

Geschichten vom lieben Gott eftir Rainer Maria Rilke í þýðingu Hannesar.

Úr Sögum af himnaföður

Hvernig sviksemin barst til Rússlands

Zarinn Ivan grimmi hugðist leggja skatt á furstana í grennd og hótaði þeim stórstyrjöld, svo fremi þeir sendi ekki gull til Moskvu, hinnar hvítu borgar. Þegar furstarnir höfðu borið saman ráð sín, svöruðu þeir einum munni: “Við leggjum fyrir þig þrjár gátur. Komdu á tilteknum degi, sem við ákveðum, í austurveg, að hvíta steininum, þar sem við verðum staddir, og segðu okkur lausnirnar þrjár. Um leið og þú hefur svarað rétt, látum við af hendi við þig þessar tólf ámur gulls sem þú krefst af okkur.”

Fyrst í stað velti zarinn Ivan Vasiljevitsj fyrir sér gátunum, en hinar mörgu kirkjuklukkur í hvítu borginni hans, Moskvu, trufluðu hann. Þá kallaði hann fyrir sig lærdómsmenn sína og ráðgjafa og hvern þeirra sem ekki kunni svar við spurningunum lét hann leiða til hins rauða torgs, þar sem einmitt stendur kirkjan sem reist hafði verið Vasilij hinum berstrípaða, og hálshöggva umsvifalaust. Sakir þessa mikla annríkis leið tíminn svo fljótt, að hann vissi ekki fyrri til en hann var lagður af stað til Austurlanda í áttina til hvíta steinsins þar sem furstarnir biðu. Hann kunni ekki svar við neinni af spurningunum, en ferðalagið yrði langt og alls ekki loku fyrir það skotið að hann rækist á vitran mann, því í þá daga voru margir spekingar á faraldsfæti þar sem allir kóngar lögðu það í vana sinn að gera þá höfðinu styttri ef þeim fannst þeir ekki nógu vitrir.

(s. 42-43)