Snarkið í stjörnunum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Snarkið í stjörnunum er óvenjuleg ættarsaga sem hverfist um hugarheim móðurlauss sjö ára drengs í Reykjavík í kringum 1970 og stormasamt hjónaband langafa hans og langömmu um aldamótin 1900. Líf ólíkra kynslóða tvinnast saman þannig að úr verður margradda sálumessa.

Úr Snarkinu í stjörnunum:

6. kafli

Tilvera mín er sprottin af einni setningu; sjö orðum sögðum í eldhúsi í Skaftahlíð snemma morguns í janúarmánuði 1959. Ungur maður hafði komið upp úr kjallaraíbúð og stefndi niður að horni Skaftahlíðar og Lönguhlíðar. Hann gekk framhjá litlu fjölbýlishúsi, amma mín horfði út um eldhúsglugga á annarri hæðinni og muldraði setninguna sem allt hvílir á: Stakkels manden, hvorfor er honum svo kalt?

Amma er norsk. Hún er kannski ekki amma mín í skilningi blóðsins, en það breytir náttúrlega engu. Á þessum janúarmorgni hefur hún búið í tæp fimmtán ár á Íslandi og blandar saman íslensku og norsku svo úr verður hennar eigið tungumál. Hér verður þó að koma fram að það er ekki vani ömmu að standa við eldhúsglugga og horfa út, hendur hennar verða órólegar um leið og hún leggur vinnuna frá sér; hendurnar prjóna lopapeysur sem eru eins og mállýska hennar, blanda af norsku og íslensku. Þær seljast vel, hún hefur varla undan. Amma álítur það vitna um slæpingshátt að horfa út um eldhúsglugga, hún segir að eldhúsgluggar Reykjavíkur séu fullir af húsmæðrum sem nenni engu nema að horfa út í þeirri von að þær geti kallað einhvern inn í kjaftagang. En örlögin, tilviljunin eða eitthvað stilla henni við eldhúsgluggann í Skaftahlíðinni þenna sæmilega milda janúarmorgun, hún sér unga manninn ganga framhjá, svo kuldakrepptan að hún finnur óvænt til móðurlegrar tilfinningar. Stakkels manden, muldrar hún, hvorfor er honum svo kalt? Ung kona situr við eldhúsborðið og skrifar bréf; hún lítur upp. Og þessvegna er ég til.

(s. 49 - 50)